Ritið : tímarit Hugvísindastofnunar - 01.01.2021, Blaðsíða 187
SIGMUND FREUD
158
nýja þráhyggju“, segir hann, „og mér datt samstundis í hug að hún kynni
að þýða þetta eða eitthvað annað. En það getur ekki verið rétt eða mér gæti
ekki hafa dottið það í hug“. Af meðferðinni má ráða að það sem hann er hér
að hafna er auðvitað hin rétta merking þráhyggjunnar.
Þannig er það þá að ímynd eða hugsun getur fundið sér leið til með-
vitundar svo fremi að henni sé neitað.3 Neitun er leið til að kynnast því sem
bælt er. Raunar léttir hún þegar á bælingunni, þó að auðvitað sé ekki þar
með sagt að hún fallist á það sem var bælt. Hér má sjá hvernig vitsmunirnir
skiljast frá tilfinningum. Fyrir tilstyrk neitunarinnar er aðeins annarri af af-
leiðingum bælingarinnar eytt, því að hugsunarhluti hins bælda kemst ekki
til vitundar. Árangur þess verður eins konar vitsmunaleg viðtaka hins bælda,
en aðalatriði bælingarinnar heldur áfram.4 Í meðferðinni búum við síðan oft
til mjög mikilvægt og fremur undarlegt afbrigði þessa. Okkur tekst líka að
sigrast á neituninni og fá fullkomna vitsmunalega viðtöku hins bælda. En
það ýtir þó ekki til hliðar bælingarferlinu sjálfu.
Úr því að það er hlutverk dómgreindarinnar að játa eða neita tiltekinni
hugsun leiðir það sem við höfum verið að segja okkur að sálrænum uppruna
þess hlutverks eða starfsemi. Að neita einhverju með dómgreind sinni er
þegar öllu er á botninn hvolft sama og að segja: „Þetta vildi ég helst bæla“.
Neikvætt mat er vitsmunalegur staðgengill bælingar;5 „neiið“ þess er kenni-
mark bælingarinnar, upprunavottorð – líkt og Made in Germany6 – skulum
við segja. Fyrir tilstyrk neitunartáknsins leysir hugsunin sig undan takmörk-
unum bælingarinnar og bætir við sig efni sem henni er nauðsynlegt til eðli-
legrar starfsemi sinnar.
3 [Hér getur verið álitamál hvort réttara er að þýða með „neita“ en „afneita“. Að sumu
leyti gæti virst eðlilegra að þýða með „afneita“, en þá er þess að gæta að Freud notar
sjálfur tvö orð: verneinen (neita) og verleugnen (afneita). Fyrra orðið notar hann í
þessari ritgerð. – Þýðandi.]
4 [Hér er um það sama að ræða og það sem liggur til grundvallar alkunnri hjátrú
að varasamt sé að hrósa sigri. „Mikið er gott að ég skuli ekki hafa fengið neinn
höfuðverk í dag“. En í rauninni er þetta fyrsta tilkynningin um höfuðverkjarkast
sem viðkomandi er þegar farinn að finna að er í aðsigi, þó að hann vilji enn ekki trúa
því. Freud datt fyrst niður á þessa skýringu í meðferð á frú Cäcilie M., sem var einn
af fyrstu sjúklingum hans eða að minnsta kosti fyrsta skráða sjúkrasaga hans. Sjá
bók Sigmunds Freud og Josefs Breuer, Studien über Hysterie, Leipzig og Vín: Franz
Deuticke, 1895. – Þýðandi.]
5 [Freud mun fyrst hafa komið þessari hugmynd á framfæri í bók sinni Der Witz
und seine Beziehung zum Unbewussten (1905). Aftur kemur hún fyrir í ritgerðinni
„Formulierungen über die zwei Prinzipien des psychischen Geschehens“ (1911) og
síðan í ritgerðinni ,,Das Unbewusste“ (1915). – Þýðandi.]
6 [Á ensku í frumtexta. – Þýðandi.]