Ritið : tímarit Hugvísindastofnunar - 01.01.2021, Page 188
NEITUN
159
Dómgreindin fæst aðallega við tvenns konar ákvarðanir. Hún kveður á
um hvort tiltekið fyrirbæri hefur vissa eiginleika eða ekki. Hún segir til um
hvort það sem birtist sé raunverulegt eða ekki. Eiginleikinn sem til mats
kemur getur hafa verið í upphafi góður eða vondur, gagnlegur eða skaðlegur.
Sé þetta sagt á tungu hinnar elstu hvatar – munnhvatarinnar – hljóðar matið
svo: „Ég vil éta það“ eða „ég vil hrækja því út úr mér“ og með almennara
orðalagi: „Ég vildi gjarnan taka þetta inn í mig, en halda hinu fyrir utan“.
Það er að segja: „Það á að vera inni í mér“ eða „það á að vera fyrir utan mig“.
Eins og ég hef sýnt annars staðar vill hið upprunalega vellíðunarsjálf varpa
inn í sjálft sig öllu sem er gott en varpa öllu vondu frá sér. Hið vonda, það
sem er sjálfinu framandi og það sem er fyrir utan var upphaflega eitt og hið
sama.7
Hin ákvörðun dómgreindarinnar – hvort það sem birtist sé raunveru-
legt (raunveruleikaprófun) – er viðfangsefni hins fullmótaða raunveruleika-
sjálfs, sem þróast í framhaldi af hinu upphaflega vellíðunarsjálfi. Nú er ekki
lengur um það að ræða hvort það sem maður hefur skynjað skuli fella inn
í sjálfið eða ekki heldur hvort eitthvað sem birst hefur í sjálfinu geti einnig
birst á ný sem skynjun (raunveruleg). Eins og við sjáum er hér um að ræða
hvað er utan við og hvað fyrir innan. Það sem er óraunverulegt, einungis
birting og hún huglæg, er aðeins til hið innra; það sem er raunverulegt er
aftur á móti einnig þarna fyrir utan. Á þessu stigi þróunar hefur tillit til vel-
líðunarlögmálsins verið lagt til hliðar. Reynslan hefur kennt viðkomandi að
það skiptir ekki aðeins máli hvort eitthvað (viðfang sem veitir honum full-
nægingu) hefur til að bera „góðan“ eiginleika og eigi því skilið innlimun í
sjálf hans heldur líka hvort það sé til í umheiminum, svo að hægt sé að ná
til þess þegar þörf krefur. Til þess að skilja þetta framfaraskref verður að
minnast þess að öll birting á rætur sínar í skynjunum og er endurtekning
á þeim. Upphaflega var því birtingin trygging fyrir að það sem birtist væri
raunverulegt. Andstæðurnar milli hins huglæga og hlutlæga voru ekki til í
upphafi. Þær urðu til við að hugsunin varð búin þeim eiginleikum að geta
birt mönnum á ný fyrir hugarsjónum það sem eitt sinn var skynjað með því
að sýna það aftur, án þess að hið ytra viðfang þurfi enn að vera til staðar.
Fyrsta og beina stefnumark raunveruleikaprófunar er því ekki að finna raun-
verulegt skynjað viðfang heldur finna slíkt viðfang á ný til þess að sannfærast
7 Sjá um þetta umræðu [í ritgerð minni] „Triebe und Triebschicksale“ (1915). [Freud
fjallaði svo á ný um þetta í fyrsta kafla rits síns Undir oki siðmenningar, Reykjavík: Hið
íslenska bókmenntafélag, 1990. – Þýðandi.]