Helgafell - 01.09.1944, Page 183
TIL ATHUGUNAR UM „ALFRÆÐABOKINA
1 HELGAFELLI Kefur nokkrum sinnum verið vikið að nauðsyn á útgáfu íslenzkrar alfræði-
bókar, einkum frá því sjónarmiði, að með samningu slíkrar bókar yrði gerð víðtæk tilraun á skipu-
legan hátt til þess að samhæfa íslenzkt mál hugtökum alþjóðlegrar nútímamenningar, eða ,,temja
íslenzka hugsun og tungu við samþjóðleg viðfangsefni“, eins og hér var einhvern tíma komizt að
orði. Vegna sérstöðu íslendinga um lítt þjálfað fræðimál, hlýtur undirbúningur alfræðibókar, sem
þessu á að vera vaxin, að vera tvíþættur og því vandasamari sem hér er að öllu leyti um frum-
smíð að ræða, en hjálpargögn öll í fátæklegasta lagi. Misheppnuð, en óhjákvæmilega alldýr,
útgáfa slíkrar bókar, mundi tvímælalaust verða til að tefja fyrir nytjaverki af sama tagi, einmitt
á því skeiði, er ætla má, að Islendingum verði þess mest þörf.
Áætlunarhraði hinnar fyrirhuguðu útgáfu h. f. Fjölsvinns bendir ekki til þess, að forustu-
mönnum þess fyrirtækis hafi verið sérstaða vor um undirbúning verksins nægilega ljós. 1.
bindið af 12 fyrirheitnum á að vera fullbúið í hendur áskrifendum á miðjum næsta vetri, en
hin á 3—4 árum. Eftirfarandi upplýsingar um útkomutíma merkra alfræðibóka á Norðurlönd-
um ættu að geta orðið Fjölsvinni bending um að endurskoða og endursemja útgáfuáætlun sína hið
fyrsta, áður en lengra er haldið, en menntamálaforustu ríkisins brýn hvöt að öðrum kosti til
þess að taka málið í sínar hendur:
# Salomonsens Konversationsleksikon, í 1. útg., kom út í 18 bindum á 19 árum.
# Norsk Illustr. Konversationsleksikon (síðar kennd við Aschehoug), 1. útg., kom út í 6
bindum á 7 árum.
# Nordisk Familjebok, 1. útg., kom út í 18 bindum á 20 árum.
# 2. útg. sömu bókar kom út í 38 bindum á 24 árum.
Undirbúningstími þessara bóka er hér þó ótalinn.
Samanburður á starfskröftum og hjálpargögnum mundi naumast geta orðið hinni fyrirhug-
uðu Fjölsvinnsútgáfu í vil, sízt þar sem henni er sjálfgert að fara á mis við liðsinni ýmissa
færustu fræðimanna vorra, þeirra, sem nú eru í herkví á Norðurlöndum, auk heldur annarra
vísindamanna þar. Engin bót er það í máli, að þvílík skyndiútgáfa, eða a. m. k. fyrstu bindi
hennar, yrði sennilega einnig afskipt um öruggar upplýsingar um flest, sem gerzt hefur á Norð-
urlöndum, meginlandi Evrópu og raunar í umheiminum yfirleitt á styrjaldarárunum og kynni
þannig að verða ,,fyrirstríðsbók“ að mestu, þegar verðlagi sleppir.
Útgáfa íslenz\rar alfrœðibókar er brýnt, en vandleyst félagsmál allra íslendinga.
Takist Fjölsvinnsmönnum ekki að átta sig á þessu í tæka tíð, verður almenningur og mennta-
málaforusta hans að létta af þeim vandanum, en láta þeim jafnframt eftir þá vegsemd að hafa
komið heilladrjúgri hræringu á vanrækt menningarmál.
M. Á.
Nokkurrar ósamkvæmni hefur orðið vart í bókaskránni, sem notuð var við atkvæðagreiðsl-
una. Þannig hafa tvær bækur Bókmenntafélagsins frá síðasta ári, er báðar munu fást í lausa-
sölu, orðið útundan við samningu hennar. Eru það þessar bækur: Einar Ól. Sveinsson: Á
Njálsbúð og Steingrímur J. Þorsteinsson: Upphaf lei\ritunar á íslandi. Eru höfundar og út-
gefendur þessara bóka, og þeir aðrir venzlamenn rita frá árinu 1943, er kunna að hafa sætt
sömu meðferð, beðnir afsökunar á mistökunum. Aftur á móti hafa verið teknar í skrána tvær
bækur Menningarsjóðs og Þjóðvinafélags, er ekki munu til þessa hafa verið falar utanfélags-
mönnum. Orkað getur tvímælis, hvort sum smáritin í skránni hefðu átt að vera þar, og enn-
fremur virðist ekki skýr markalína dregin milli þeirra kennslubóka, sem þar hafa fengið rúm,
og hinna, sem þar eru ekki greindar, en svo sem áður er sagt, var fátt slíkra bóka tekið í skrána.
Reykjavík, 20. október 1944.
Jón Magnússon, Magnús Ásgeirsson,
Snorri Hjartarson.