Helgafell - 01.09.1944, Blaðsíða 217
BÓKMENNTIR
375
kennara til nemenda sinna, sem birt er í bók-
inni, verði flestum ógleymanlegt sökum rólegs
karlmannshugar og stolts.
Sigurður Nordal prófessor skrifar formála
fyrir bókinni og drepur þar réttilega á sann-
sögulegt gildi frásagnarinnar. Bæði hér á landi
og annars staðar, þar sem menn hafa ekki
kynnzt drottnun nazismans af sjón og raun,
hefur á því borið, að menn hafa vefengt sög-
urnar um ógnir nazistastjórnarinnar. Hitt mun
þó vera mála sannast, að enn séu ekki öll kurl
komin til grafar í þeim efnum. Og einhvern
tíma mun píslarvættissaga þeirra þjóða, sem
nazisminn fékk klófest, verða skráð öll. En fyr-
ir útgáfu þessarar ágætu og skjalfestu sögu Nor-
egs undir oki nazismans eiga allir hlutaðeig-
endur þakkir skilið.
Sverrir Kristjánsson.
Fyrsta skáldsagan
frá hernámi Noregs
Christian Wessel (dulnefni): MEÐAN
DOFRAFJÖLL STANDA. Jakob Jóns-
son íslenzkaði. Víkingsútg. Rvík 1944.
292 bls. Verð kr. 30—.
Meðan Dofrafjöll standa mun vera fyrsta
skáldsagan, sem lýsir hernámi Noregs og ævi
norsku þjóðarinnar á hernámsárunum. í norsk-
um smábæ og norrænni einangrun heyra menn
fjarlægan óm af ægiviðburðum álfunnar og
trúa vart sínum eigin eyrum. Pólitískur flótta-
maður þýzkur fær þar friðland hjá Svanfjöl-
skyldunni. Eyvindur Svan, ungur rithöfundur,
sem lifað hefur í ríki drauma og skáldskap-
ar, skýtur skjólshúsi yfir hann og ætlar síðan
að skilja við unnustu sína til þess að geta geng-
ið að eiga þýzka flóttakonu og gefið henni norsk-
an ríkisborgararétt. Hann hafði búizt við, að
þetta væri aldraður og skorpinn kvendoktor, en
þegar til kemur, er það ung og fríð stúlka af
Gyðingakyni, án hælis og ættjarðar. Lesandinn
er í fyrstu hræddur um, að sagan ætli að verða
venjulegur ástaharmleikur ,,í þríkant**, en ann-
ar höfundur tekur í taumana —, veraldarsagan
sjálf. Þýzk skip, sem lengi hafa legið þögul og
drungaleg á firðinum fyrir framan þorpið, létta
akkerum og stefna til borgarinnar. Þau eru
full af hermönnum, hernámsliði Þjóðverja. Og
nú hefst harmleikur heillar þjóðar, er örlög
einstaklinganna virðast skipta svo litlu máli
nema sem tákn eða þáttur þjóðarörJaganna.
Eyvindur og Elín, unnusta hans og kona, verða
fulltrúar Noregs í baráttu og þjáningum. Skáld-
ið og draumóramaðurinn verður starfsmaður
leynisamtakanna, þéttriðið net þjóðarviðnáms-
ins er þanið um land allt, þegar menn hafa
náð sér eftir hina fyrstu undrun og viljalömun.
Elínu leysist höfn og sturlast, þegar þýzkur
hermaður hefur misþyrmt henni. Hún varpar
móðurást sinni á brúðu í barns stað, en lífs-
kraftur hennar er sterkari öflum dauðans, og
hún nær aftur heilbrigði sinni, er hún hefur
alið barn á nýjan leik. En sama dag verður
Eyvindur að flýja land og fara yfir sænsku
landamærin. Hann veit of mikið um leyni-
starfsemina, og áhættan er of mikil, ef hann
félli í hendur Gestapó. Nú er Eyvindur orðinn
flóttamaður eins og litla Gyðingastúlkan, sem
ekkert ættland átti á hinni stóru jörð. Hann
gengur í slóð hennar yfir öræfin á leið til Sví-
þjóðar, þar sem hún var skotin á landamær-
unum. Og hinn frjálsborni Norðmaður kennir
frændsemi við flóttamann nútímans og veit,
að Gyðingurinn, Lotta Fischer, var systir hans.
Sögupersónur höfundarins eru hvorki gljá-
fægðir dýrlingar né afburða ,,hetjur‘‘, þær
eiga allar sína mannlegu veikleika og bresti,
en í allri kröm sinni sigrast þær á sjálfum
sér og lífsskilyrðunum. Mörg atriði verða mönn-
um minnisstæð í þessari bók, svo sem þegar
Eyvindur og félagi hans í bjargarleysi nota
sjórekinn þýzkan hermann í beitu; dauðastund-
ir Drengsa og fundir Lottu og Eyvindar á heiða-
bænum. Hatur höfundarins á Þjóðverjum varn-
ar honum ekki skilnings á þeim, og víða ber
bókin vitni um strangan listamannsaga. Höfund-
inum eykst sýnilega ásmegin þegar líður á
söguna og viðfangsefnin færast í aukana. Fyrri
hluti bókarinnar er einna síztur; höfundurinn
fær ekki túlkað nógu sannfærandi samhengi
norska smáþorpsins og umheimsins, Svan
gamla og Eyvindur eru í fyrstu nokkuð laus
í sniðum. En síðar í sögunni bætir höfundur-
inn þessa misbresti fullum bótum.
Séra Jakob Jónsson hefur íslenzkað bókina.
Ég hef því miður ekki haft tækifæri til að bera
þýðinguna saman við frumritið. En þótt þýð-
ingin sé ekki sérstaklega svipmikil, virðist hún
mjög liðleg og bera lítinn þýðingarkeim.
Sverrir Kristjánsson,