Skírnir - 01.01.1947, Page 126
124
Platón
Skírnir
óskiptur. En eins og til eru tvær Afrodítur, önnur eldri og
himnesk, hin yngri, jarðnesk og hversdagsleg, þannig eru
og Erosar tveir, því að aldrei er Afrodíta án Erosar. Ann-
ar þessara Erosa er himneskur, hinn dregur nafn af Afro-
dítu Pandemos (þ. e. „sem tignuð er af gervöllum lýðn-
um“), gyðju jarðneskrar fegurðar.
Eros Pandemos tilbiðja venjulegir menn. Elska þeir
jafnt konur sem og unglinga og drengi, elska líkamann
meir en sálina og hirða ekki um, hvort ást þeirra er varan-
leg og siðbætandi.
Hinn himneski Eros lætur sig hins vegar meiru varða
sálina en líkamann. Beinist hann meir að karlkyni en
kvenkyni. Af hans rótum eru runnin ævilöng tryggða-
bönd milli unglinga og fulltíða manna. Helgast þau sums
staðar af almennri siðvenju, t. d. í Elealandi og Böótíu, en
í Aþenu og Spörtu eru skoðanir skiptar um þau og í Íóníu
og meðal útlendra þjóða eru þau litin óhýru auga eigi síð-
ur en leikfimiskólar og ástundun heimspeki. Að dómi Pá-
saníasar er þessi himneski Eros mjög mikilsverður bæði
fyrir einstaklinga og ríkisheildir, því að hann örvar bæði
elskandann og þann elskaða til dyggða og dáða.
3. Ræða Eryxímakkosar. Eiginlega hefði Aristofanes
samkvæmt röðinni átt að tala næstur. En þar eð magnað-
ur hixti ásækir hann, biður hann Eryxímakkos lækni að
tala fyrst.
Eryxímakkos hefur mál sitt á því að viðurkenna stað-
hæfingu Pásanísasar um tvo gagnstæða Erosa. En hann
bætir því við, að þessi skipting taki eigi aðeins til starf-
semi hans í mannssálinni, heldur gæti hennar bæði í allri
náttúrunni og einnig í listum. Alls staðar verði vart bæði
góðra hneigða og illra, alls staðar rekumst vér á lögmál
aðdráttar og fráhrindingar: fyrst í ásigkomulagi líkam-
ans sem heilsu og vanheilsu, í hljómlist sem samhljóman
og ranghljóman, í ræktun sem frjósemi og ófrjósemi og
loks á trúmálasviðinu sem guðrækni og guðleysi. I öllum
þessum greinum veltur mest á réttri samstilling nauðsyn-
legra grundvallareininga. Er það meginviðfangsefni hverr-