Skírnir - 01.01.1947, Side 130
128
Platón
Skírnir
eins vel og eg get. Ber þá, Agaþón minn! eins og þú tókst
fram, fyrst og fremst að útskýra Eros, hver hann er og
hvílíkur og þar næst verk hans. Virðist mér greiðast að
rekja það, eins og hún útlistaði það forðum með spurn-
ingum, er hún lagði fyrir mig. Því einnig mér fórust hér
um bil eins orð við hana, eins og Agaþóni við mig núna,
að Eros sé mikill guð og í tölu hinna fögru. En hún hrakti
mig með sömu ástæðunum, sem eg hrakti Agaþón með, er
hún sannaði, að samkvæmt mínum (eigin) orðum væri
Eros hvorki fagur né góður.
„Hvað segirðu, kæra Díótíma!“ mælti eg, „er Eros þá
ljótur og vondur?“
„Talaðu ekki svona,“ svaraði hún, „eða heldurðu, að
það, sem ekki er fagurt, þurfi endilega að vera ljótt?“
„Auðvitað."
„Eða að sérhvað, sem ekki er viturt, sé fávíst, eða læt-
urðu þér ekki skiljast, að til er eitthvað, sem liggur mitt
á milli vizku og fávizku (o: óvizku)?“
„Hvað skyldi það vera?“
„Veiztu ekki, að það að hafa rétta ætlan og geta þó ekki
fært rök fyrir, það er hvorki að vita — því hvernig ætti
nokkuð það, er rök vantar fyrir, að geta verið vitan —
né heldur óvizka, því hvernig ætti það, sem hittir á hið
rétta, að vera óvizka? En hin rétta ætlan er vissulega
eitthvað þess konar, sem liggur mitt á milli vizku og
óvizku.“
„Satt segir þú,“ mælti eg.
„Vertu þá ekki að knýja það svo fast, að það, sem ekki
er fagurt, sé ljótt, eða að það, sem ekki er gott, sé illt;
skaltu einnig ætla svo um Eros, er þú sjálfur játar, að
hvorki sé góður né fagur, — að ekki þurfi hann fremur
þess vegna fyrir hvern mun að vera ljótur, heldur sé hann
eitthvað mitt á milli þess hvors tveggja.“
„En það er þó,“ mælti eg, „af öllum játað, að hann sé
máttugur guð.“
„Áttu við af öllum ófróðum eða öllum fróðum?“
„Nú, sjálfsagt af öllum jafnsaman.“