Tímarit Máls og menningar - 01.05.2012, Blaðsíða 68
68 TMM 2012 · 2
Brynja Þorgeirsdóttir
„Einu sinni var – trédrumbur“
Um hina illu sæborg Gosa og ummyndanir hans
Einu sinni var …
– Kóngur! – munuð þið, litlu lesendur mínir sjálfsagt svara um hæl.
– En ónei, börnin góð, þar skjátlaðist ykkur.
Einu sinni var – trédrumbur.
(Collodi, 1883/1987:7).
Þannig hefst ævintýrið um Gosa og strax er gefið fyrirheit um að sagan
sé ekki eins og önnur ævintýri. Eins hefur ferðalag þessa bókmenntaverks
verið ólíkt annarra, Gosi hefur náð þvílíkum vinsældum og útbreiðslu að
hann er orðinn menningarstofnun út af fyrir sig. Verkið hefur tekið miklum
breytingum á þessari vegferð – líkt og Gosi sjálfur í sögunni – og er nú
komið töluvert langt frá uppruna sínum. Flestir þekkja Gosa nú á dögum
af mjög einfaldaðri útgáfu Walts Disney af verkinu, sem birtist í teiknaðri
kvikmynd árið 1940 – eða af ýmsum tilbrigðum við teiknimyndina sem
hafa komið út á bók í óteljandi útgáfum. Hið upphaflega verk Carlos Collodi
frá árinu 1883 lifir nú um stundir nánast eingöngu meðal fræðimanna. Það
er mun flóknara, lengra og skuggalegra verk; nítjándu aldar Gosi Collodis
var svo sannarlega ekki saklaus og talhlýðinn bjartur snáði, heldur hvatvís,
sjálfselskur, og ofbeldisfullur. Hann var hortugur unglingur sem ullaði á
Geppetto, skapara sinn, undireins og hann fékk munn, þreif af honum hár-
kolluna og strunsaði burt um leið og smíðaðir höfðu verið á hann fætur.
Nokkrum blaðsíðum síðar drap hann litlu krybbuna með hamri, því að hann
var svo pirraður á pexinu í henni. Og Geppetto tálgaði ekki brúðudrenginn
af ljúfsárri þrá eftir syni – heldur hafði hann hugsað sér að nota brúðuna til
sýninga og vinna sér þannig inn fyrir mat. Í fyrstu atrennu endaði Collodi
söguna með því að Gosi var hengdur og dó. Sem betur fer náðaði höf-
undurinn Gosa fyrir þrábeiðni lesenda og hélt áfram með söguna. Í kjölfarið
öðlaðist Gosi gjöfult og frjótt líf í hugum þeirra sem lásu um ævintýri hans.
Gosi er mennsk brúða, gervimenni, eða það sem kallað er sæborg. Hér verður
rýnt í sæborgina Gosa eins og hún birtist í verki Collodis frá 1883, uppruna
hans, sköpunarsögu, breytingar á líkama hans og persónu, sem og hið illa og
góða í persónu hans og hvernig það tengist hugmyndum um sæborgina.