Tímarit Máls og menningar - 01.05.2012, Blaðsíða 76
B r y n j a Þ o r g e i r s d ó t t i r
76 TMM 2012 · 2
að færa fórnir. Þegar hann hefur unnið það þrekvirki að bjarga föður sínum
af snarræði og fórnfýsi úr maga stórfisksins, unnið heiðarlega verkamanna-
vinnu um langa hríð og hugsað vel um aldraðan og lasburða föður sinn, sýnt
hógværð, auðmýkt, gjafmildi og vinnusemi til lengri tíma – þá fyrst kemur
dísin til hans í draumi og Gosi vaknar sem drengur af holdi og blóði. Í spegli
sá hann ekki:
… þetta venjulega mjóslegna fés spýtubrúðunnar, heldur holdfyllt og greindarlegt
andlit lítils drengs með dökkbrúnt hár, skær augu og með glaðlegt og hressilegt yfir-
bragð eins og páskarós.
(Collodi, 1883/1987:118–119).
Gosi er illur
Þannig er endirinn – en í upphafi, á fyrstu dögum Gosa í brúðuformi, er
hann svo sannarlega engin „páskarós“. Í bræðiskasti kálar hann talandi
krybbunni með hamri, þessari sem gegnir svo mikilvægu hlutverki í
Disney-myndinni. Gosi segist ætla að strjúka frá föður sínum því hann
vilji ekki fara í skóla að læra, hann vilji heldur leika sér, elta fiðrildi, „jeta,
drekka, sofa, skemta mér og lifa allan daginn fyrirhafnarlausu lífi“ (Collodi,
1883/1922:21). Krybban segir þá að honum muni farnast illa og segist vor-
kenna honum: „Þú ert gerfikarl, en verst að öllu er, að þú hefur trjákoll.“
Gosi verður hamslaus af reiði og grípur hamar og drepur krybbuna. Gosi
birtist þarna sem stjórnlaus, ill sæborg. Hin illa sæborg og óttinn við hana er
áberandi í flestum þeim bókmenntaverkum og kvikmyndum sem um hana
fjalla. Þessi ótti er raunar oft meginstefið eins og til dæmis í kvikmyndinni
Alien (Scott, 1979) og Matrix (Wachowski og Wachowski, 1999) og rekur sig
allt aftur til fyrstu verkanna sem fjalla um sæborgir; svo sem til hinnar frægu
Olimpiu í Sandmanni Hoffmanns (1817/1885) og skrímslisins í Franken-
stein (Shelley, 1818/2009), enda er þessi ótti stundum kallaður „Franken-
stein-komplexinn“, þegar rætt er um tortryggni gagnvart gervimennum
og vélum sem líkjast fólki í útliti. Þræðirnir í þessum ótta við sæborgina
virðast í meginatriðum þrír; hræðslan við að missa stjórn á tækninni, við
að missa stjórn á líkamanum og við að missa mennskuna á einhvern hátt.
Eins og bent er á í Sæborginni (Úlfhildur Dagsdóttir, 2011) er sjálfvirkni og
sjálfstæði oftast sett upp sem andstæðupar – á öðrum endanum er sæborgin
sem er sjálfvirk vél, en á hinum enda andstæðuparsins er mennsk vera sem
er sjálfstæð. Mennskan er teiknuð upp sem jákvæður eiginleiki og tengist
góðmennsku, en sjálfvirknin er af hinu illa. Af þessu leiðir að um leið og
sæborgir sýna mennsku eða mannlegar tilfinningar að einhverju marki fara
þær yfir ásinn og hætta að vera vondar. Gott dæmi um þetta er Tortímandinn
sem grætur í lok myndarinnar Terminator 2: Judgment Day (Cameron, 1991)
og markar það kaflaskil, persóna hans er breytt, hann er orðinn góður og