Tímarit Máls og menningar - 01.05.2012, Blaðsíða 12
G í s l i Pá l s s o n o g S i g u r ð u r Ö r n G u ð b j ö r n s s o n
12 TMM 2012 · 2
sem var framarlega í flokki líkamsmannfræðinga í Bandaríkjunum. Hoo-
ton gagnrýndi síðar líkamsmannfræði nasista, en hins vegar fjármagnaði
hann rannsóknir undir áhrifum kynþáttahyggju (Barkan 1988:186, Marks
2008:244). Í einni af bókum sínum, Up from the apes, sem kom fyrst út árið
1931, fjallar hann um „blóðflæði kynþáttanna“ (blood stream of human
races), um framrás tegundarinnar og aðgreiningu kynþátta frá villimennsku
til siðmenningar (Hooton 1946). Blóðtengslin sem Hooton gerir ráð fyrir
endurspegla kynþáttahugmyndir hans. Norrænir menn voru í hans augum
bæði nokkuð hreinn stofn og háþróaður en „mongólískar“ þjóðir, þar á
meðal inúítar, ráku lestina.
Hooton, líkt og aðrir líkamsmannfræðingar á hans tíma, leit á bein
sem besta vitnisburðinn um breytileika mannsins. Mæling og flokkun
beina varð ástríða, sem birtist vel í beinasafni Peabody-stofnunarinnar við
Harvardháskóla. Þar er um að ræða umtalsvert safn mannabeina frá öllum
heimshornum, eins konar allsherjarþing fyrri tíma, varðveitt í hundruðum
pappakassa merktum fólki og stöðum: „Bóhemía“, „Íslendingar“ o.s.frv.
(Gísli Pálsson 2003:76).
Undir sterkum áhrifum af mannfræði Hootons, varð Vilhjálmur
nákvæmur skrásetjari hvers kyns líkamsmælinga. Í dagbókum hans má
sjá að inúítar hafi oft verið tregir til að láta mæla sig og stundum krafist
borgunar. Þetta varpar ljósi á starfshætti og aðstæður Vilhjálms, blendin
viðbrögð þeirra sem eru rannsakaðir og ójafnvægið í sambandi þess sem
rannsakar og þess sem er rannsakaður. Nálgun Vilhjálms er dæmigerð fyrir
það sem tíðkaðist á tímum nýlendumannfræðinnar. Heimskautasvæðið og
þjóðir þess átti að kortleggja, skrásetja – og stjórna.
Fyrir leiðangra sína á heimskautasvæðið tók Vilhjálmur þátt í forn-
leifaleiðangri til Íslands. Árið 1905 var hann skipaður aðstoðarmaður við
Harvardháskóla, sem sérfræðingur deildarinnar í heimskautasvæðum. Sama
ár ferðaðist hann til Íslands með hópi landfræðinga og kollega úr mann-
fræðinni. Mannfræðingarnir unnu að uppgreftri á beinum úr kirkjugörðum
frá miðöldum. Upphaflega var tilgangurinn að grafast fyrir um samband
mataræðis og heilsu á miðöldum, en fljótlega vöktu beinin ýmsar spurningar
um uppruna landsmanna og samanburð við aðrar þjóðir (Seltzer 1933). Í
grein sem birtist í American Journal of Physical Anthropology segir Hooton
áberandi hversu íslensku beinin séu lík beinum eskimóa (1918:53). Þótt Hoo-
ton greini ákveðin líkamleg líkindi með Íslendingum og eskimóum, segir
hann það ekki endilega erfðafræðilega ákvarðað, líklegra, segir hann, að
um sé að ræða „líffræðilega aðlögun að svipuðu mataræði og umhverfi“ á
norðurslóðum (1918:74).