Tímarit Máls og menningar - 01.05.2012, Blaðsíða 85
Í t a l í u þ r í l e i k u r
TMM 2012 · 2 85
EINS OG FINGRUM SÉ SMELLT
Sólsetur í Lerici, einum fallegasta smábæ sem ég hef augum
litið. Ég geng berfættur undir þiljur í gamalli seglskútu, sest á
mjóan bekk í lúkarnum og þigg tagliatelle með olíu og chili-
pipar og soðnu grænmeti af sólbrúnum sjómönnum sem
ganga um í gallastuttbuxum og taka lífinu með ró.
Seint í ágúst, í fjarska logar á marglitum ljóskerjum og loftið
ilmar af salti, kryddi og sólbökuðum sandi sem kólnar í
rökkrinu. Ég segist ætla að synda í sjónum daginn eftir.
Sjómennirnir kinka kolli. Ekki seinna vænna, segja þeir, því á
morgun er síðasti dagur sumarsins. Það hljómar ótrúlega, en
ég kinka kolli, eins og þeir.
Nýr dagur. Nógu heitt fyrir Íslending en heimamenn eru
hættir að borða undir berum himni og ég er einn í sjónum
þetta síðdegi. Ég syndi langt út, fram hjá öllum skútunum,
fram hjá baujunum og út á opið haf. Sný mér við, leyfi volgum
sjónum að lyfta mér upp og niður meðan ég dáist að því sem
fyrir augu ber. Skógi vaxnar fjallshlíðar, þorpið í víkinni,
kastalinn uppi á oddanum og hér og þar í brekkunum litfögur
hús sem ég læt mig dreyma um að búa í einn daginn – í
mánuð eða tvo, um alla eilífð.
Bak við fjöllin er skuggi, sjórinn er að kólna og dökkna, salt-
lyktin magnast upp – það er feigð í loftinu.
Ég vakna í stormi. Regnið steypist til jarðar og flæðir um
göturnar, snarpur vindur beygir pálmatrén og slítur af þeim
blöðin, enginn er á ferli, sjómenn fella segl og kaupmenn loka
og læsa, gluggar hverfa bak við veðurbarða hlera og það er
eins og húsin hverfi inn í sig og verði ósýnileg í dimmgráu
rökkrinu.
Sumarið er dáið, draumurinn á enda.