Tímarit Máls og menningar - 01.05.2012, Blaðsíða 6
G í s l i Pá l s s o n o g S i g u r ð u r Ö r n G u ð b j ö r n s s o n
6 TMM 2012 · 2
gáfu af sér þá mynd að þeir væru frumbyggjar norrænnar siðmenningar,
eins og þjóðin hefði fæðst á tímum landsnámsins. Undir sterkum áhrifum
orðræðu þjóðernispólitíkur lagði íslenski skólinn í fornsögurannsóknum
mikla áherslu á djúpar sögulegar rætur íslensku þjóðarinnar (Einar Ólafur
Sveinsson 1959:33). Mestalla tuttugustu öldina voru sögurnar ein mikil-
vægasta stoðin, ef ekki sú mikilvægasta, sem Íslendingar byggðu á ímynd
sína og fortíðarinnar (Gísli Pálsson 1995). Textarnar voru þó meðhöndlaðir
á tvo ólíka vegu. Sumir fræðimenn, kenndir við sagnfestukenninguna,
litu á þær sem nákvæma lýsingu raunverulegs fólks og atburða sem bæru
vitni hetjudáða og persóna víkingaaldar. Þetta voru annars vegar evrópskir
fræðimenn og hins vegar alþýðufræðimenn með rótfestu í þeim héruðum
sem sögurnar greindu frá og þar með var þetta lengi ríkjandi viðhorf
meðal þess alþýðufólks sem las þessar sögur. Bókfestumenn voru hins
vegar háskólamenn í Reykjavík sem vildu búa til „höfund“ í borgaralegum
nútímaskilningi og í þeirra augum voru sögurnar meira og minna skáld-
skapur, sköpun bókmenntasnillinga. Hvor sem nálgunin var göfguðu allir
fortíðina.
Frá sjálfstæði hefur íslenskt samfélag, ímynd landsins og sjálfsmynd
breyst, á róttækan hátt. Mikilvægast í því samhengi er hvernig síðari heims-
styrjöldin og síðan kalda stríðið endurskilgreindi samfélagið og stöðu þess
meðal þjóðanna. Hagkerfið var nútímavætt á tveimur áratugum, horfið var
frá áherslu á landbúnað til mjög tæknivædds sjávarútvegs, stéttakerfi kom
fram með nýjum ójöfnuði og Ísland færðist, stjórnmálalega og menningar-
lega, nær Bandaríkjunum þótt landsmenn ræktuðu um leið tengsl sín við
hinar Norðurlandaþjóðirnar. Nær okkur í tíma, að loknu köldu stríði og
aukinni stjórnmálalegri og efnahagslegri samþættingu Evrópu, nýfrjáls-
hyggju í stjórnmálum og efnahagslegum þrengingum síðustu ára hefur
Ísland horft í austur. Í breyttum heimi mun menningarminni Íslendinga
mæta ógnunum og áskorunum, sérstaklega munu hugmyndir um íslensk
sérkenni, tungumál, hefðir og menningarmæri breytast. Samt virðist Homo
islandicus ekkert á förum.
Fólk eins og við: Norðmenn og germanski heimurinn
Nokkrir þeirra íslensku menntamanna sem leiddu viðleitni Íslendinga til
að mynda samheldna þjóð með sterka sjálfsvitund sóttu menntun sína til
Þýskalands og tileinkuðu sér fljótt þarlendar hugmyndir um kynþáttafræði,
Rassenkunde, um menningarlegt stigveldi og kynhreinsun, allt hugmyndir
sem áttu eftir að setja sterkan svip á þýska mannfræði og síðan þriðja ríkið.
Í baráttu sinni notuðu þeir hugmyndir um yfirburði norræna kynþáttarins.
Sumir báru kynþáttaboðskapinn gegnum Kaupmannahöfn. Einn þeirra,
Guðmundur Hannesson (1866–1946) læknir, um tíma landlæknir, átti eftir
að leika mikilvægt hlutverk sem varðar sögu íslenskrar líkamsmannfræði.