Tímarit Máls og menningar - 01.05.2012, Blaðsíða 112
Á d r e p u r
112 TMM 2012 · 2
hann og spinnur fram margvíslegt
landslag, líklega í meirihluta olíu- og
vatnslitamyndanna, einkum þeim síðar-
nefndu. Hann ýmist vefur saman mynd-
brotum héðan og þaðan eða býr til
heildarmyndir í huganum af einhverju
sem gæti verið til hér á landi en er
hvergi að finna í reynd. Hann ýkir líka
þekkt landslag eins og Björn Th. Björns-
son bendir á og telur til marks um
„háleita náttúrudýrkun“. Sé þetta ýkta
og uppspunna landslag skoðað í sam-
hengi má vel líta á slíka nálgun sem svo
að þar sé unnið í anda impressjónisma,
þvert ofan í skoðun Björns; túlkun hug-
hrifa fremur en tjáningu á dýrkun;
óhlutlægan skáldskap fremur en hlut-
læga lýsingu. Margir hafa ekki forsend-
ur til að gera sér grein fyrir náttúru-
skáldskapnum í verkum Guðmundar,
þekki þeir ekki þeim mun betur til
óbyggðanna. Halda jafnvel að upp-
spunnu verkin séu lítið annað en mis-
mikið fegruð eftirlíking af raunveruleg-
um stöðum.
Vissulega bregður oft fyrir kunnug-
legum myndefnum, t.d. af Þingvöllum
eða Snæfellsjökli, og Guðmundur gerði
töluvert af því að mála það sem nefna
mætti „heimahagalist“, rétt eins og
Kjarval að sínu leyti, enda báðir sveita-
piltar sem verið höfðu til sjós. Þetta
gerðu raunar margir íslenskir listamenn
á fyrri hluta 20. aldar; máluðu myndir
af sjósókn og úr landbúnaði á torfbæjar-
skeiðinu, sbr. Gunnlaug Scheving. Aðrir
en Guðmundur hafa þó ekki fengið þá
greiningu að þeir aðlagi þýska „Heimat-
kunst“ að íslenskum aðstæðum, sbr. orð
Björns Th. Björnssonar í Íslenskri
myndlist. Guðmundur málaði enn frem-
ur dýramyndir eða þjóðsagnaminni,
einkum málverk af fuglum og hánor-
rænum spendýrum. Það má ekki síst
rekja til áhuga hans á dýravernd og
heimskautasvæðum. Raunar hafa við-
horf manna breyst á síðustu árum til
náttúrunnar og ástar á henni. Margt
sem mönnum kann að hafa þótt til vitn-
is um kynlega „náttúrudýrkun“ á sínum
tíma, þegar ungir menntamenn reyndu
að efla sjálfsmynd sína sem borgar-
menn, þykir nú á dögum eðlilegri
sjónar mið.
Almennt talað festist Guðmundur,
eftir því sem árin liðu, í andstöðu sinni
við óhlutbundna list, enda þótt hann
hefði mætur á mörgum erlendum lista-
mönnum frá lokum 19. aldar til miðrar
þeirrar 20. sem tjáðu sig iðulega á mörk-
um þess hlutbundna og óhlutbundna.
Það sást einna best á eign listaverka-
bóka. Munch, Gauguin, Cézanne, van
Gogh, Klimt og Redon voru meðal
þeirra sem hann virti mikils. Tilvitnun í
grein Guðmundar í Iðunni 1928 (Listir
og þjóðir), þar sem hann býsnast yfir til-
teknu mótífi van Goghs, dugar ekki til
að breyta þeirri staðreynd. Hvað sem
þessum almennu viðhorfum leið þróað-
ist hann hins vegar sjálfur sem lista-
maður, sér í lagi með tilkomu vatnslita í
verkum. Þau urðu litaglaðari, frjálsari
og sum næsta óhlutbundin, einkum
hauststemmningar. Því miður entist
honum ekki aldur til að nálgast
nútímann enn meir. Hann lést á 68.
aldurs ári.
Eflaust má finna þessari þróun stað í
blaða- og tímaritsgreinum eftir Guð-
mund síðustu ár hans, eða í viðtölum,
en fjöldi málverka eftir hann talar þó
mun skýrara máli.
Gengið til verks
Að þessu skrifuðu er kominn tími til að
skoða orð Æsu Sigurjónsdóttur listfræð-
ings og kennara við Háskóla Íslands um
Guðmund Einarsson í Listasögu Íslands.
Mér er ekki kunnugt um hvernig hún
stóð að ritun blaðsíðnanna fjögurra eða
hve víða hún kannaði verk eftir Guð-