Tímarit Máls og menningar - 01.05.2012, Blaðsíða 42
Á r n i F i n n s s o n
42 TMM 2012 · 2
Í bók sinni Framtíð jarðar, segir dr. Gunnar G. Schram um Ríó-yfir-
lýsinguna að:
Gildi Ríó-yfirlýsingarinnar felst í því að líta má á hana sem eins konar stjórnarskrá
ríkja heims í umhverfismálum á komandi árum. Þar er stefnan mörkuð, markmið
sett og nýmæli mótuð sem án efa munu setja mark sitt á löggjöf og framkvæmd
ríkja í umhverfismálum á næstu árum og áratugum. Yfirlýsingin er ekki lagalega
skuldbindandi fyrir ríki en með því að ljá henni atkvæði sitt hafa ríki veraldar stað-
fest að þau vilja framkvæma þá stefnu sem í henni felst.10
Þótt Ríó-yfirlýsingin hafi ekki verið lagaleg skuldbindandi fyrir aðildarríki
Sameinuðu þjóðanna hafa þær grundvallarreglur sem þar er að finna
smám saman verið lögfestar, bæði í einstökum ríkjum og í alþjóða-
samningum (varúðarreglan var tekin upp í Úthafsveiðisamningi Sameinuðu
þjóðanna).11
Leiðarstef Árósasamningsins – sem er skilgetið afkvæmi 10. greinar Ríó-
yfirlýsingarinnar – er áherslan á tengsl mannréttinda og umhverfismála. Sú
staðreynd að fullgildingarferlið hér á landi skyldi taka rúman áratug er til
marks um þann hausverk sem umhverfisverndarsamtök ollu lengi vel í kolli
íslenskra ráðamanna. Aðalritari Sameinuðu þjóðanna, Kofi Annan, lýsti
Árósasamningnum svo, að hann væri metnaðarfyllsta tilraun til lýðræðis-
legrar umhverfisverndar sem ráðist hefði verið í á vegum stofnana Sam-
einuðu þjóðanna.12
Í ljósi alls þessa – að ógleymdri vestrænni lýðræðishefð – er erfitt að
skýra á hvaða ferðalagi íslensk stjórnvöld voru þegar þau skilgreindu
alþjóðleg umhverfisverndarsamtök sem ógn við hagsmuni þjóðarinnar.
Sennilega var tilgangurinn – öðrum þræði – að sannfæra landsmenn um
að hvalamálið væri langt því frá tapaður málstaður. Þótt í móti blési um
sinn myndi málið vinnast með markvissri kynningu á málstað Íslands
erlendis. Á hinn bóginn voru ítrekaðar yfirlýsingar forsætis- og utanríkis-
ráðherra um umhverfisverndarsamtök þess eðlis að þær verður að skoða sem
stefnumótandi í utanríkismálum. Í þessari grein verða færð rök fyrir því að
þessi stefna hafi beinlínis skaðað hagsmuni Íslands á alþjóðavettvangi.
Rétt er að taka fram að innan stjórnarráðsins var fólk sem vann að
umhverfismálum á öðrum forsendum en forustumenn ríkisstjórnar Íslands
gerðu í lok síðustu aldar. Á sama tíma og hvalveiðideilan stóð sem hæst hér
á Fróni fór fram undirbúningsvinna fyrir Ríó-ráðstefnuna. Á undirbúnings-
fundum í Genf, Nairobi og New York var tekist á um orðalag Dagskrár 21,
Ríó-yfirlýsinguna, Loftslagssamninginn og Samninginn um líffræðilegan
fjölbreytileika sem þjóðarleiðtogar skyldu taka endanlega afstöðu til í Ríó.
Af gögnum Greenpeace International má sjá að samstarf samtakanna við
fulltrúa Íslands, dr. Gunnar G. Schram lagaprófessor, var mjög gott. Kom þar
tvennt til: Í fyrsta lagi hafði dr. Gunnar mjög mikla reynslu af alþjóðlegum
samningum vegna undirbúnings Hafréttarsáttmála Sameinuðu þjóðanna