Tímarit Máls og menningar - 01.05.2012, Blaðsíða 21
H o m o i s l a n d i c u s – i n n a ð b e i n i
TMM 2012 · 2 21
sérfræðingar á sviði líffræðilegrar mannfræði tóku að líta á bein sem nánast
úrelt viðfangsefni, sem hlytu að víkja fyrir erfðaefninu DNA (Sommer 2008).
Aðeins gögn af síðara taginu, segja menn stundum, leyfa fræðimönnum að
glíma af viti við sögu mannsins. En þótt aðferðir og kenningar erfðafræði
og líffræðilegrar mannfræði hafi reynst gjöfular og opnað nýja sýn er líklegt
að þær muni, rétt eins og fyrirrennarar þeirra, taka breytingum, ekki síst
ef haft er í huga að einsýn genaumræða hefur að undanförnu sætt vaxandi
gagnrýni.
Þjóðernishugmyndir áttu eflaust nokkurn þátt í áhuga Íslendinga á
líkamsmannfræði, erfðafræði og líffræðilegri mannfræði, og yfirleitt rann-
sóknum á beinum og erfðaefni. Slíkar rannsóknir opnuðu mönnum sýn
inn í blómaskeið íslenskrar menningar þegar hetjur riðu um héruð og
hvöttu menn til að ímynda sér sérkenni hins „sanna“ Íslendings, í bland við
klisjur og fordóma samtímans (Sigríður Matthíasdóttir 2004). Full ástæða
er til að huga að þessari sögu og ábyrgð rannsókna og fræða. Undanfarið
hafa miklar umræður farið fram víða í Evrópu, meðal annars í skugga
fjöldamorðanna í Noregi 22. júlí 2011, um hreina kynþætti, menningar-
lega fjölbreytni og þann hugmyndalega og pólitíska jarðveg sem leiðir af sér
hatramma kynþáttahyggju. Hryðjuverkin í miðborg Oslóar og Útey hafa
ekki aðeins vakið spurningar um sálarlíf þess manns sem stóð að verki og
það norska samfélag sem ól hann, heldur einnig um rætur hins norræna og
evrópska heims sem við byggjum. Eðlilegt er að fólk spyrji um vaxtarskilyrði
kynþáttahyggju nú á tímum og áhrif fræðasamfélagsins á hugmyndir okkar
um hver við erum, hvað greini okkur frá öðrum og hvað skilji yfirleitt á milli
mannhópa. Hvaðan koma hugmyndir okkar um litaraft, hreinleika, blöndun
og fjölbreytni? Hver er ábyrgð mannfræðinnar, fræðigreinarinnar um Homo
sapiens? Að hve miklu leyti hefur hún endurómað og jafnvel lagt grunninn
að kynþáttahyggju samtímans? Kyllingstad (2012) reifar slíkar spurningar
í norsku samhengi. Íslensk líkamsmannfræði og skildar greinar verða að
sjálfsögðu ekki undanskildar.
Þótt sagnfræðingar og líkamsmannfræðingar síðustu aldar hafi stuðst við
ólík gögn, hafa þeir haft tilhneigingu til að setja saman sviplíkar frásagnir af
Homo islandicus, með áherslu á hreinleika og sérstöðu. Slíkar frásagnir hafa
stundum tekið mið af áþekkri umræðu annars staðar, einkum á Norður-
löndum, í Þýskalandi og Bandaríkjunum. Sem nýlenda Danmerkur var
Ísland þó í fremur sérkennilegri heimspólitískri og menningarlegri stöðu.
Annars vegar voru Íslendingar hluti af hinu fjarlæga norðri, Thule, í hópi
annarra nýlenduþjóða á þeim slóðum í harðri baráttu við náttúruöflin á
jaðri siðmenningar, eins og það hét. Hins vegar, sérstaklega í augum ger-
manskra þjóða, var oft litið á Ísland sem vöggu norrænnar menningar – sem
heim hugrakkra, frjálsra manna (það fór minna fyrir konum en körlum
þótt stundum væri að vísu talað hátt um viljasterkar valkyrjur), sem rituðu
bókmenntir á heimsvísu. Ísland þótti upprunalegt og norrænt, nærtækt