Tímarit Máls og menningar - 01.05.2012, Blaðsíða 93
R i t u n a r s a g a U t a n g á t t a
TMM 2012 · 2 93
Raunar hefur Utan gátta sérstöðu að því leyti að þar erum við eiginlega
komin inn í hugarheim, alla leið inn í óra-veröld.
Margir höfundar heilluðu mig þegar ég var að byrja að skrifa leikrit, þeir
hjálpuðu mér með fordæmi sínu með afar ólíkum hætti, þetta voru til dæmis
Grikkirnir þrír, einkum Æskýlos, þarna voru líka fyrstu leikrit Bertolts
Brecht, ennfremur hugmyndir hans um leikrof, kór og non-aristótelíska leik-
ritun, Tsékhov, Pirandello, Shakespeare, einkum aðferð hans að skipta milli
mónólóga og fjöldasena, semsé samspil objektívs og súbjektívs sjónarhorns;
það má nefna fleiri, til dæmis Fernando Arrabal, Arthur Adamov. Þetta urðu
mennirnir í baklandinu, ekki það að ég væri að reyna að líkja eftir þeim,
þvert á móti, en þeir hjálpuðu mér að finna eigin rödd.
Aðalhvatinn að ritun Utan gátta var þrátt fyrir allt einfaldlega löngun til
að skrifa texta sem einungis fengi merkingu á leiksviði.
Leit að leikhúsupplifun. Leit að andrúmslofti, hugblæ, ástandi, tónfalli,
textarými, endurkomu ljóðtexta á leiksviði, nútíma ljóðtexta. Ekki einfaldri
framvindu.
Á ritunarskeiðinu var ég að skoða enn og aftur að gamni mínu vin minn
Æskýlos, prósaþýðingu og inngang Jóns Gíslasonar á Oresteiu, þríleik
Æskýlosar.
Þar segir Jón m.a.: „… Aiskýlos leggur ríkari áherzlu á hugblæ og hinn
hrollvekjandi gust en leikræna verðandi.“
Hugblær fremur en leikræn verðandi, þetta og fleira veitti mér styrk og
kjark. Um svipað leyti barst mér ný þýðing á Óresteiu eftir Æskýlos á frönsku.
Þar er þýðingin hvorki í prósa né á háttbundnu ljóðformi heldur á nútíma-
ljóðformi, fríljóði, ljóðtexta sem hefur verið í gangi frá og með Rimbaud,
sirka 140 ár, hjá okkur í sirka 60 ár eða frá og með atómskáldunum.
Þarna kom alveg ótrúlegur nýr og nærtækur kraftur í textann. Ég minnist
á þetta hér í framhjáhlaupi, málefnið ætti skilið heilan fyrirlestur, í stuttu
máli, þurfum við ekki einmitt svona þýðingar á Grikkjunum og annarri
klassík? Með fullri virðingu að sjálfsögðu bæði fyrir Jóni Gíslasyni og ekki
síður Helga frænda mínum Hálfdanarsyni og leikritaþýðingum hans í
bundnu máli.
Annar þanki þessu tengdur í framhjáhlaupi. Gleymum því ekki hvað er í
rauninni stutt síðan að var almennt farið að skrifa leikrit (önnur en gaman-
leikrit) í prósa, sirka 130 ár.
Af hverju er það svona skrýtið allt í einu ef leikrit er á ljóðmáli, ég á við
nútímaljóðmáli?
Ég bara spyr.
Utan gátta er tilraun til að losna undan venjulegum natúral-realískum
persónum og kringumstæðum, hinni endalausu endurgerð á veruleikanum.