Tímarit Máls og menningar - 01.05.2012, Blaðsíða 91
R i t u n a r s a g a U t a n g á t t a
TMM 2012 · 2 91
MILLA:
Ja, kannski, og þó, þetta var víst eitthvað flóknara…
Held það hafi verið vestur til Ameríku. Miðvestur. Slétturnar.
Ekki lest, rúta, Greyhound-rúta.
Á ritunarferlinu og sviðsetningarferlinu fór ég að skrifa texta um verkið,
nokkurs konar loggbók, aðallega til þess að gera sjálfum mér grein fyrir því á
hvaða siglingu ég væri. Það veitti mér öryggi, ég hef aldrei siglt jafn ótrauður
út í þokuna.
Ég spurði sjálfan mig: hvernig verk er þetta og svaraði:
Þetta er mósaíkverk. Smásjármyndir úr innra lífi tveggja sviðspersóna. Tvær tal-
maskínur, innilokaðar á leiksviði. Leikverur fremur en persónur.
Stöðugt að leita að heildarmynd, yfirsýn. En það er ekki auðvelt, þær standa alltaf
of nærri sjálfum sér til þess. Heildin er brotakennd, fragmentarísk, eins og upplifun
okkar í lífinu. Mósaík.
Raddirnar eru innilokaðar í ping-pong-veröld tvennunnar. Alltaf tvær. Fá aldrei að
vera einar, aldrei bætist þriðji aðilinn við.
Skelfileg nauðung tvennunnar…
Undir niðri liggur eitthvað sem kalla má mannlegt hlutskipti. Að vera háður
óhamingju, sársauka, átökum.
Heildin er fragmentarísk. Röð af fragmentum sem estetísk heild. Verkið er bein-
línis hugsað gegn hinni „órofa heild“ hefðbundinna leikverka.
Áður en lengra er haldið skulum við skoða aðeins í mjög grófum dráttum
á hvaða hátt leikrit eru ólík öðrum textum veraldarinnar. Innan sviga:
vitanlega er hægt að hugsa sér að leika hvaða texta sem er en ég er hér að tala
um leikrit, leiktexta sem eru skrifaðir beinlínis fyrir leiksvið.
1. Höfundur sem skrifar texta til útgáfu í bók gengur frá endanlegu formi
textans, bókin er til ótímabundin. Leikhús er tímabundið, leiksýning er
einungis til þann tíma sem hún tekur.
Sá sem skrifar leiktexta gengur frá texta sem er ekki endastöð í sjálfu sér,
þetta er texti í biðstöðu, texti sem er stökkbretti fyrir annað listaverk sem
heitir sviðsetning eða leiksýning.
Leikskáldið er ekki listrænn stjórnandi leiksýningar heldur leikstjórinn.
Leikskáld ættu að skrifa þessa setningu stórum stöfum á vegginn fyrir
ofan skrifborðið, það gæti forðað þeim frá magasári, komið í veg fyrir
beiskju og frústrasjón og jafnvel eitthvað ennþá verra.
Hér í þessu spjalli mun ég reyna að halda mig við ritun leiktextans, enda
var ég ekki listrænn stjórnandi leiksýningarinnar, það er að segja leikstjóri.
Hins vegar kláraði ég leiktextann eftir að æfingar hófust þannig að undir-
búningur leiksýningarinnar kemur við sögu í lokaspretti ritunar. Kem að
því síðar.