Tímarit Máls og menningar - 01.05.2012, Blaðsíða 73
„ E i n u s i n n i va r – t r é d r u m b u r“
TMM 2012 · 2 73
frá sköpun sinni er Gosi Collodis hinsvegar ekki bara sjálfsöruggari og
þroskaðri, heldur mun flóknari en krúttlegi litli Disney-Gosinn. Hann er
hvatvís og ofbeldisfullur, sparkar og slær til föður síns, svarar kurteisi með
hroka, kemur ekki öðrum til hjálpar í neyð og notar hvert tækifæri til að
svindla sér í gegnum erfiðleika. Þá er það áberandi ólíkt með verkunum að
nánast ekkert ofbeldi er að finna í Disney-kvikmyndinni og raunirnar sem
Gosi gengur í gegnum aðeins smámunir miðað við sögu Collodis.
Viðtökur verks geta verið lykilatriði í skilningi á því, móttökurnar og
saga þeirra getur orðið hluti af merkingarsamhengi verksins þegar fram
líða stundir. Hægt er að líta á það þannig að lesendur komi sér upp með
tímanum ákveðnum ramma sem skilyrðir allar væntingar þeirra til verksins
(Jauss, 1970). Þessi rammi mótast meðal annars af menningarbundinni
forþekkingu fólks af verkinu, þekkingu lesandans á öðrum verkum úr
bókmenntasögulegu umhverfi verksins og hvernig þeir tengja textann við
eigin væntingar og lífsreynslu. Áðurnefnd kvikmynd Disneys frá 1940 hafði
mikil áhrif á þessi væntingamörk lesenda þegar kemur að Gosa. Í þessari
útgáfu Disneys breiddist verkið út um allan hinn vestræna heim og Disney-
útgáfan er sú saga, og sú persóna Gosa, sem flestir lesendur þekkja. Þannig
hefur teiknimyndin skilyrt skilning hins almenna lesanda á Gosa allar götur
síðan hún kom út.
Hér á landi, sem víðast hvar í hinum vestræna heimi, var yfirgnæfandi
meirihluti útgáfa af Gosa einhverskonar afbrigði af Disney-kvikmyndinni
áratugum saman, allt þar til Fjölvi gaf út fyrrnefnda heildarþýðingu á verki
Collodis árið 1987. Þá gerði Roberto Benigni leikna bíómynd árið 2002,
Pinocchio (Benigni, 2002), sem hlaut reyndar blendnar viðtökur. Þar er farið
nokkuð nákvæmlega eftir upprunalegri sögu Collodis – en örlítið bætt við
sköpunarsöguna; gefið er í skyn í upphafi að það hafi verið bláhærða dísin
sem kveikti lífið í trjádrumbinum. Í næsta atriði þýtur drumburinn niður
götuna, eins og hann hafi sjálfstætt líf, og snarstansar við dyr Geppettos sem
líst vel á, og byrjar að smíða brúðu sem mun sjá fyrir honum í ellinni, segir
hann. Skyndilega byrjar drumburinn að tala við hann og gera grín að gulu
hárkollunni hans. Gosi er strax hortugur og ódæll, og fylgir sagan eftir þetta
í meginatriðum söguþræði upphaflegrar útgáfu.
Líkami brúðunnar
Á myndunum sem fylgja fyrstu útgáfum á verki Collodis er Gosi langt frá
hinum snotra og blíða Disney-Gosa, og líkist fremur grannvöxnum unglingi
en barni. Teikningarnar sýna krangalegan spýtustrák, langan og mjóan,
grófsmíðaðan með greinilegum liðamótum við hné og olnboga (Perella,
1986a). Gosi var teiknaður á þennan hátt allt fram til þess að áhrif Disney-
teiknimyndarinnar urðu ráðandi eftir árið 1940. Höfuðið er fínlegt, andlitið
mjótt, augun lítil og nefið stórt – andlitið er eini hluti líkamans sem gæti