Tímarit Máls og menningar - 01.05.2012, Blaðsíða 135
D ó m a r u m b æ k u r
TMM 2012 · 2 135
annars á áhrifum auðmanna á stefnu
safnsins, furðulegri stöðu myndlistar
sem fjárfestingar, og málverkafölsun í
auðgunarskyni. Sögusvið Bónusstelp-
unnar er eiginlega á hinum enda mynd-
listarheimsins. Þar kemst lesandinn í
tæri við útskriftarverkefni úr Listahá-
skóla Íslands, vettvang þar sem óharðn-
aðir listamenn leika sér með sjálft form
listarinnar og möguleika hennar án
nokkurs tillits til þess hversu mörgum
krónum hún kann að velta eða hvort
hún eigi nokkurntímann erindi inn á
safn eða aðra viðurkennda listastofnun.
Diljá er að útskrifast úr myndlistar-
deildinni og fær hugmynd að gjörningi:
Hún ætlar að afgreiða í Bónus á meðan
á útskriftarsýningunni stendur. Hún
ætlar að lita á sér hárið og varirnar í
æpandi bónusbleikum, neglurnar í til-
boðsgulum, vera hress, klæðast svartri
kassadömuflíspeysunni af stolti. Hún
veit í fyrstu ekki alveg hvað verkið á að
merkja en prófessorarnir styðja hana og
eru „ekki í neinum vandræðum með að
útskýra gjörninginn á listrænum for-
sendum“ (28) og setja hann í samhengi
við sögu íslenskrar samtímalistar. Þetta
á að vera „list í tengslum við samfélagið.
Eitthvað þannig“ (28). Óafvitandi snert-
ir verk Diljár hins vegar einhvern streng
í þeim litríka hópi sem kaupir inn í
Bónus og áður en líður á löngu er hún
orðin hálfgildingsdýrlingur í margra
augum, hún er orðin Bónusstelpan,
kassadaman sem skannar ekki bara
strikamerki og býður manni poka, held-
ur uppfyllir hún einnig óskir og gerir
kraftaverk.
Það má segja að Diljá gangi í gegnum
það með ýktum hætti sem margir lista-
menn kynnast þegar þeir fara að starfa
og fá viðbrögð við verkum sínum: Listin
tekur á sig merkingu sem þá óraði ekki
fyrir að hún hefði. Diljá fær að reyna
það á eigin skinni að listamaðurinn
hefur litla sem enga stjórn á viðtökum
verksins heldur verður merking þess
alltaf til hjá viðtakandanum. Fyrir þeim
sem koma í Bónus er gjörningurinn
ekki bara samfélagsleg list eða „eitthvað
þannig,“ heldur verður persóna Diljár
holdgervingur vona og væntinga þessa
breiða þjóðfélagshóps. Diljá verður að
þjóðsagnapersónu í flökkusögu sem fer
eins og eldur í sinu um internetið án
þess að hún geti nokkuð að gert. Fólkið í
Bónus eignast þannig verkið og fer með
það eins og því sýnist. Diljá bregður
vissulega þegar hún áttar sig á því
hvernig gjörningurinn hefur snúist í
höndunum á henni, en í listrænu tilliti
eru viðbrögð hennar skynsamleg: hún
leyfir honum að þróast á sinn eigin veg.
Hún tekur ábyrgð á verkinu í þeim
skilningi að hún leiðir það til lykta í stað
þess að hafa af því óeðlileg afskipti, hún
finnur að hún hefur skyldum að gegna
gagnvart gjörningnum og sjálfri sér sem
listamanni.
Foreldrar Diljár og fulltrúar mynd-
listardeildarinnar vilja hins vegar stýra
viðtökum verksins, þeir gera sig seka
um þá íhaldssömu skoðun að merking
verks verði einvörðungu til hjá lista-
manninum. Listaháskólinn tekur
ákvörðun um að fella Diljá og hamla
þannig útskrift hennar þótt prófessor-
arnir hafi verið svo jákvæðir í upphafi,
og þegar foreldrar Diljár sýna henni
athugasemdir á síðu Bónusstelpunnar á
flettismettinu þar sem henni er þakkað
fyrir öll kraftaverkin spyr móðir hennar
hana í miklu uppnámi: „Hvernig getur
þetta verið í lagi? Var það þetta sem þú
ætlaðir þér?“ (68). Svarið er auðvitað að
Diljá ætlaði sér fyrst og síðast að búa til
listaverk, en smátt og smátt gerir hún
sér grein fyrir því að hún hefur búið til
verk sem hefur raunveruleg áhrif á líf
fólks, verk sem nær út fyrir veggi galler-
ísins, en það hlýtur að vera eitthvert