Tímarit Máls og menningar - 01.05.2012, Blaðsíða 92
S i g u r ð u r Pá l s s o n
92 TMM 2012 · 2
2. Leiktexti er tíma-bundinn í tvennum skilningi; hann er fluttur af sviði
í tengslum við tímann sem líður, athöfnin eða gjörningurinn leiksýning
byrjar einhvern tíma, henni lýkur einhvern tíma.
Listaverkið leiksýning fer fram í óviðsnúanlegri framrás tímans, áhorfandinn
flettir ekki aftur ef hann missir af einhverju, ef þú heyrir ekki orð eða
setningu í leikhúsi af því að það heyrist ekki í leikaranum eða maðurinn við
hliðina á þér fær hóstakast, þá er orðið eða setningin þér glötuð að eilífu.
Þess utan er leikhús og leiksýningar í tengslum við tímann í merkingunni
tíðarandi; leikverk sem þykir óskiljanlegt í ákveðnum kringumstæðum í
þjóðfélaginu, verður það kannski alls ekki fimmtíu árum síðar. Og öfugt.
Eitthvað sem heillaði, skemmti og sagði áhorfendum fullt af hlutum um
aldamótin 1900 er kannski hvorki fyndið, heillandi né segir neinum neitt
hundrað árum síðar.
Og þannig áfram. Og þetta er margfalt mikilvægara fyrir leiktexta en
texta á bók. Fyrirbærið bók felur í sér óbreytt listaverk, endanlega gerð sem
er óbundin tímanum í fyrri merkingunni, bundin tímanum vissulega í
merkingunni Zeitgeist, tíðarandi.
3. Að skrifa leiktexta er að skrifa fyrir eyrun á áheyrendum, þeir eru ekki
bara á-horfendur heldur ekki síður á-heyrendur.
Alls konar hlutir eins og rýtmi, dvalir, þagnir, hljómfall, styrkur, allt þetta
skiptir meginmáli. Leikrit skrifar maður aðallega fyrir eyrun. Textinn er
fluttur af mannlegri veru, líkama, honum er miðlað upphátt fyrir aðra
líkama með skilningarvit, textinn er móttekinn með eyrunum. Í leiktexta
eru rýtmamerki eins og kommur, punktar og semikommur ekki til skrauts,
þau eru beinlínis uppfull af merkingu.
Í þessu sambandi mætti minnast á eitt atriði sem ég hygg að komi öllum
leikskáldum í opna skjöldu í upphafi, það er sú staðreynd að texti á sviði er
stækkaður upp, ef svo má segja, þaninn það mikið að allir hnökrar heyrast
óþægilega skýrt.
Í ritun leiktexta gildir alltaf lögmálið minna er meira, less is more.
Í öllum leikverkum mínum hef ég leitast við að sameina súbjektífa og
objektífa skynjun. Bæði inni í höfði og skynjunarkjarna persónu og líka utan
frá séð. Ég hef alltaf haft þetta markmið, vitanlega hefur það ekki tekist nema
að litlu leyti.
Ég er mjög spenntur fyrir því að sameina samfélagslegar, sögulegar stað-
reyndir annars vegar og innri veröld persóna hins vegar, óra og drauma.
Einhvern tíma var ég spurður hvort ég gæti fundið yfirskrift á alla leikritun
mína, ég sagði draumkennt raunsæi. Innri vitund og órar og samfélagstengd
ytri sýn, sameinaðar.