Tímarit Máls og menningar - 01.05.2012, Blaðsíða 35
TMM 2012 · 2 35
Óskar Árni Óskarsson
Russell Edson og
ljóðheimur hans
Russell Edson fæddist í New York árið 1935. Faðir hans Gus Edson var
kunnur teiknimyndahöfundur sem teiknaði m.a. Andy Gump, þekkta
teiknimyndafígúru á sínum tíma. Sjálfur hefur Edson fengist við gerð
teiknimynda, bæði sem textahöfundur og teiknari. Segja má að einhver skyld-
leiki sé á milli hinnar súrrealísku ljóðaveraldar hans og teiknimyndasagna
og má það kallast harla óvenjulegur áhrifavaldur fyrir ljóðskáld. Sextán ára
gamall vann hann til verðlauna fyrir teikningar í Art Students League í New
York en hann byrjaði ekki að skrifa af fullri alvöru fyrr en hann innritaði
sig í Black Mountain College í Norður-Karólínu, sem var mjög framsækinn
lista- og rithöfundaskóli. Þar var hann undir handleiðslu ljóðskáldsins
Charles Olson sem þekktur var fyrir ýmsar tilraunir í ljóðagerð. Samtíða
Edson í skólanum voru ljóðskáld sem síðar áttu eftir að marka nokkur
spor í amerískri ljóðlist, má þar nefna Robert Creely og Robert Duncan, og
einnig framúrstefnutónskáldið John Cage. Fyrstu ljóð Edsons birtust í Black
Mountain Review 1951. Seint á sjöunda áratugnum stofnaði hann sitt eigið
grafíkverkstæði, Thing Press, og þar þrykkti hann þær tréristur sem prýða
fyrstu bækur hans, en þær gaf hann út sjálfur í litlum upplögum. Nokkru
eftir dvöl sína í Black Mountain College settist hann að í bænum Stamford í
Connecticut, ásamt konu sinni Frances, og hefur búið þar síðan. Annars er
flest á huldu um ævi Edsons, hann veitir sjaldan viðtöl og forðast fjölmiðla
og minnir hann í því sambandi á landa sína, rithöfundana J. D. Salinger og
Thomas Pynchon. Árið 1961 sendi hann frá sér fyrstu bók sína, A Stone is
Nobody’s: Fables and Drawings, en síðan hefur komið frá honum fjöldinn
allur af bókum, þar á meðal ein skáldsaga, sex smásagnasöfn og nokkur
leikrit en þó fyrst og fremst ljóðabækur sem allar hafa að geyma hin sérstæðu
prósaljóð Edsons. Nýjasta bók hans, See Jack, kom út árið 2009.
Gömul kona á þá ósk heitasta að geta klifrað upp í nestiskörfuna sína, eins og
piparkökukona, sú sem hefði vitaskuld gifst piparkökumanninum, hefði klof hans
verið betur mótað.
Hvað það væri notalegt að liggja á línþurrku í körfunni, hjá sultukrukku og kjúk-
lingalæri og vera kysst af piparkökumanninum.
Sumarskuggar, sumarbirta, gola í trjánum … Himneskt!