Tímarit Máls og menningar - 01.05.2012, Blaðsíða 82
82 TMM 2012 · 2
Stefán Máni
Ítalíuþríleikur
ÓDAUðLEIKINN
Hótelherbergið er lítið en bæði vel búið og þægilegt, svona
þannig séð. Allt sem á að vera, ekkert sem á ekki að vera,
snyrtimennska, nýtni og ófrumleiki í fyrirrúmi. Málverk af
borginni, þá og nú. Eftirprentanir af ódýru drasli sem eng-
inn tekur eftir. Ég hef ekkert að gera og tíminn líður hægt
– kannski stendur hann í stað og ein mínúta er ein öld innan
þessara pastellituðu veggja.
Klukkan er orðin. Tíminn færðist áfram eftir allt saman,
ótrúlegt en satt. Ég klæði mig og fer niður með lyftunni.
Lobbýið er risastórt og stórglæsilegt. Ég borga ekki sjálfur
fyrir herbergið. Ég myndi aldrei hafa efni á því. Þetta er glæsi-
hótel í glæsiborg. Ljósmyndarinn bíður mín og stendur upp
úr leðursófa þegar hann sér mig nálgast. Hann er gamall, ef til
vill áttræður, og hann talar ekki ensku. Ég tala ekki ítölsku.
Hann brosir og bendir mér á að fylgja sér. Við förum út, sem
leið liggur eftir löngum rauðum dregli og gegnum fimm
metra háar, sjálfvirkar glerdyr.
Borgin er Mílanó. Breiðstræti, stór torg, háar byggingar,
milljón bílar – bankar, tískuhús og dýrar verslanir. Lengra í
burtu er drungalegi kastalinn með blóðugu söguna. Hér var
Hemingway í stríðinu. Alla vega gerist ein sagan hans hér, á
spítala fullum af særðum hermönnum og sætum hjúkkum.
Ljósmyndarinn bendir mér hingað og þangað, stillir mér upp,
segir eitthvað á ítölsku, brosir og kinkar kolli. Á einu torginu
er fornbókabúð í færanlegum bás. Ljósmyndarinn tekur
klappstól án þess að spyrja um leyfi, lætur mig setjast öfugan
á hann, stillir mér upp – allt mjög tilgerðarlegt og listrænt –
og tekur nokkrar myndir, greinilega bæði æstur og ánægður