Tímarit Máls og menningar - 01.05.2012, Blaðsíða 84
S t e fá n M á n i
84 TMM 2012 · 2
Gamla háskólaborgin er brún og alvarleg, þungt yfir henni,
dálítið rúðustrikuð og full af sögu og fortíð og styttum af
löngu látnum hetjum – ekki stríðshetjum heldur skáldum og
heimspekingum, ef minnið svíkur mig ekki. Arno-áin silast
gegnum miðbæinn, breið og hæg, með hlaðna bakka á báðar
hendur. Áin er löng, borgin er stór og einsleit og það er erfitt
að finna bílastæði. Svo geng ég af stað, ókunnugur maður á
ókunnugum stað, og treysti á óskilgreinda eðlisávísun þangað
til ég spyr til vegar. Himinninn er þungbúinn, svo drynur
þruma – og þvílíkar dómsdagsdrunur! Eins og skotið sé af
fallbyssum, jörðin nötrar og himinninn hlýtur að hafa rifnað
sundur, beint fyrir ofan höfuðið á mér. Svo kemur regnið, og
þvílíkt regn! Eins og hellt sé úr fötu – nákvæmlega þannig!
Göturnar fyllast af vatni og tæmast af fólki, allt er á floti,
vatn og ringulreið, og svo spretta þeir upp eins og gorkúlur –
blökkumenn að selja regnhlífar. Hvaðan komu þeir?
Ég stekk inn á lítinn pizzastað og kaupi pizzusneið og kók,
finn sæti. Staðurinn er troðfullur af blautu flóttafólki og
miðaldra, amerísk hjón segja „amazing, amazing!“ og reyna
að tala við pizzakallinn, sem hristir bara höfuðið, talar ekki
ensku.
Svo styttir aðeins upp, ekki alveg, en aðeins. Ég spyr til vegar,
er víst ansi nærri og geng af stað eftir mannlausum götum,
svo votur að það verður varla neitt verra úr þessu. Meira rugl-
ið, hugsa ég, en held áfram, kominn þetta langt, orðinn þetta
blautur. Enn minnkar regnið, sólin brýst fram, ég þramma
áfram en snarstoppa á götunni því þarna birtist hann bara allt
í einu, eins og einhver hafi dregið frá tjald – baðaður sól og
aðdáun mannkyns í mörghundruð ár.
Skakki turninn
Þarna. Bara eins og ekkert sé. Svo miklu fallegri en ég hafði
ímyndað mér, svo miklu nær því að falla um koll en ég hafði
áttað mig á. Augnablikið og eilífðin sameinuð í hvítum
marmara, vísindum og trú – jafnögrandi og sunnudagaklædd
krakkaskömm sem stendur á öðrum fæti á heljarbrún, hallar
sér fram og horfir sjálfsörugg í augu móður sinnar.
Sjáðu mig!
Núna. Alltaf. Og hér er ég.