Tímarit Máls og menningar - 01.05.2012, Blaðsíða 30
S t e i n a r B r a g i
30 TMM 2012 · 2
þúsund dollarar og hundruð þeirra væru seldir á ári; fæstir sneru nokkru
sinni aftur til Evrópu, ýmist vegna hinnar ströngu gæslu sem þeir voru
beittir, eða að þeir skömmuðust sín vegna þess sem hafði verið gert við þá.
„Það er líka erfitt að finna í sér dug til að … rjúfa kyrrðina,“ sagði hann.
Talandi Moms var hljómlítill og flatur, andlitið með þessum eilítið slapandi
holusvip sem Finnur þekkti svo vel frá sjálfum sér. Á góðum degi leið honum
líkt og skýi sem flaut yfir heiðbláan himin, næstum óbærilega djúpan.
„Þrúgandi,“ hugsaði Finnur eða sagði upphátt. Það skipti ekki máli.
* * *
Dagarnir sem Mom kom í heimsókn voru frábrugðnir hinum; yfirleitt birtist
hann síðla dags niðri í garðinum, spjallaði við stúlkurnar og sagði fréttir af
efri hæðunum eða því sem hann sá út um gluggana. Hann aðstoðaði Finn við
að vekja stúlkurnar sem áttu að þjónusta um kvöldið, hjálpaði við að klæða
þær og snyrta og fylgdi þeim ásamt Finni inn í bygginguna, framhjá vörðum
sem opnuðu fyrir þau dyr inn í herbergi þar sem var lyfta. Í varðklefanum
var hundur sem urraði í hvert sinn sem þau gengu framhjá og Mom sagði
að væri fóðraður á eistum þeirra sem væru geltir í byggingunni – það vakti
kátínu stúlknanna.
Leiðangur þessi var farinn á hverju kvöldi, nema á sunnudögum, í sama
mund og daglegur en misfjölmennur kvöldverður var að enda ofar í bygg-
ingunni. Þegar lyftan opnaðist tóku tveir vopnaðir verðir við stúlkunum, ef
Mom var í heimsókn varð hann eftir niðri í garðinum en Finnur fór með
stúlkunum upp í lyftunni. Þótt hvorugur geldinganna væri fær um að ná
stinningu, þar sem líkami þeirra framleiddi ekki lengur tilskilið hormón,
voru þeir stundum hafðir til aðstoðar eða almennrar upplyftingar í þjónustu
kvöldsins. Í fyrsta skipti sem Finnur var í þjónustu fór hann ásamt tveimur
stúlkum, þeirri hollensku og einni frá Líbýu, til aldraðs araba sem lét hann
sleikja konurnar og flengdi hann á meðan en fékk svo fullnægingu yfir
andlitið á honum – sú fyrri virtist óendanleg og blindaði Finn en sú seinni
var minni, þá var komið fram á morgun.
Í annað skipti var hann aðskilinn frá stúlkunum og sendur einn í herbergi þar
sem var bar meðfram endilöngum veggnum og fjórir drukknir, ungir arabar
börðu hann og spörkuðu honum á milli sín þar til hann lá í gólfinu og gat ekki
hreyft sig, þá nauðguðu þeir honum fram á morgun. Að þessu loknu var hann
borinn aftur niður í garðinn, lagður í rúmið sitt í litla herberginu þaðan sem sá
út að gosbrunninum, og Mom annaðist hann þar til hann gat aftur gengið.
4. kafli
Dag nokkurn, eftir eina af þessum erfiðu nóttum, vaknaði Finnur og sá að
það snjóaði í garðinum fyrir utan, þykkum flygsum sem svifu hægt til jarðar
og minntu á æsku hans í Vesturbæ Reykjavíkur; í einni af minningunum