Tímarit Máls og menningar - 01.05.2012, Blaðsíða 99
R i t u n a r s a g a U t a n g á t t a
TMM 2012 · 2 99
verkið í skýran brennipunkt; eitthvað sem sagði ákaflega sáran sannleika um
varnarleysi okkar og nærsýni.
Varnarlausar verur, stjórnuðu engu, innilokaðar á leiksviði, þær minntu á
tilvist og tilfinningar okkar allra. Ekki bara okkar venjulega fólksins, heldur
því miður hinna sem áttu að stjórna þjóðfélaginu en virtust lamaðir. Við
vorum fórnarlömb einhvers ósýnilegs MC, Masters of Ceremonies, réðum
engu, skildum ekkert, venjulegir þrasgjarnir Íslendingar.
Ég skrifaði síðustu athugasemd í loggbókina:
Að efast um einfalda útgáfu af mimesis eða eftirlíkingu.
Til hvers? Aðallega til þess að list leikhússins tærist ekki og trosni. List leikarans
takmarkist. Ef við erum endanlega föst í einfaldri útgáfu af mimesis, endurgerð,
speglun, þröngum félagslegum og sálfræðilegum skilningi sem gengur út frá ein-
sleitum kringumstæðum okkar… ja, þá getum við held ég aldrei skilað klassískum
verkum leiklistarsögunnar til áhorfenda.
List leikarans er þá föst í mimesis af einsleitu þjóðfélagi, sem birtist í línulegri
leiksögu undir stöðugum þrýstingi ríkjandi frásagnarformúlna úr sjónvarpi og
kvikmyndum.
Á frumsýningu leið mér eins og kartöflumóður, þannig á leikskáldum að
líða. Leiktextinn sem skrifaður var, hann er kartafla sem sett er niður og það
stendur ekki til að hún verði tekin upp um haustið, vonandi hefur hún gefið
orku sína og næringu til margra kartaflna sem ánægðir jarðeplaræktendur
taka upp úr moldinni, dást að bústnum og stinnum kartöflunum og sparka
gamalli kartöflumóður út í garðshornið þar sem hún hverfur aftur niður í
svörðinn.
Gömul og tóm en hefur gefið líf. Þannig á það að vera.
Textinn byggir á fyrirlestri í röðinni Hvernig verður bók til?, sem Ritlistardeild HÍ skipuleggur í
samvinnu við Bókmennta- og listfræðastofnun. Fyrirlesturinn haldinn á Háskólatorgi 31. mars
2011.