Tímarit Máls og menningar - 01.05.2012, Blaðsíða 8
G í s l i Pá l s s o n o g S i g u r ð u r Ö r n G u ð b j ö r n s s o n
8 TMM 2012 · 2
jafnt illar sem góðar, eru ættgengar, arfur, sem forfeður þeirra og formæður
höfðu skilið þeim eftir til umráða. En arfinum fylgdi sú ábyrgð, að gæta þess,
að hann spilltist ekki við að blanda blóði við verri ættir“ (Eiður S. Kvaran
1934:84–85).
Eiður tók saman orðaforða fornsagnanna um líkamleg einkenni, í þeim
tilgangi að átta sig á hvaða kynþættir byggðu Ísland á þeim tíma. Í sögunum
sem hann tók fyrir fann hann lýsingar á 154 mönnum, mest karlmönnum
og þar af 20 útlendingum. Mikil áhersla er lögð á vöxt, andlitseinkenni og
hárlit:
Líkamseinkennum … er hér lýst svo skýrt og greinilega, að mannfræðingur getur
óhikað dregið af þeim ályktanir um það, af hvaða kynstofni þeir hafa verið. Þessar
lýsingar minna mjög á nútíma mannfræðirannsóknir, aðeins er sá munur á, að hér er
öllum athugunum á útliti þeirra … lýst með orðum, en ekki tölum, eins og nú tíðkast
(Eiður S. Kvaran 1934:83).
,,Enda þótt forníslenskar mannlýsingar beri vott um glöggskyggni og skarp-
leik á óvenjulega háu stigi,“ bætir Eiður við, ,,þá er auðvitað ekki við því að
búast, að þær hafi eins mikið gildi og rannsóknir þær, sem gerðar eru nú á
dögum samkvæmt reglum mannfræðinnar. Þó að sumum mannlýsingunum
svipi mjög til nútíma mannfræðiathugana, þá eru þær yfirleitt ekki gerðar
eftir vísindalegum sjónarmiðum, hvað þá mannfræðilegum“ (1934:86). Hvað
varðar hárlit, en hann sagði Eiður að væri besti mælikvarði á fegurðarskyn
forfeðra sinna (1934:93), þá var svart hár oftast tengt einhverju illu en ljóst
hár hins vegar nefnt í sömu andrá og fegurð, mikilfengleiki og virðing.
Hvergi sjást þess merki í skrifum Eiðs að hann hafi verið meðvitaður um
þær ógöngur sem fylgja slíkum samsömunum ytra útlits og atgervis, og hið
sama gildir raunar um skrif Guðmundar Hannessonar. Samhliða greiningu
sinni á sögunum mældu líkamsmannfræðingurinn og læknirinn og flokk-
uðu bæði lifandi fólk og beinagrindur frá miðöldum. Eiður hafði áhrif á
hugmyndir hér heima með skrifum í blöð og tímarit, þótt ekki skuli ofmeta
þau (Unnur Birna Karlsdóttir 1998:78). Hann var lofaður sem meistari hins
norræna arfs. Morgunblaðið segir svo frá Eiði og störfum hans 11. júlí árið
1936:
… það er oss mikils virði að eiga góða sonu í virðingarstöðum erlendis, sem kynna
land vort og þjóð á þann hátt, er hann hefir gert – En þar sem við nú höfum eignast
efnilegan vísindamann í mannfræði, vísindagrein, sem er lítt rannsökuð hjer, en hin
fylsta nauðsyn er á að gefa góðan gaum, virtist þó öllu eðlilegra og æskilegra, að vjer
færðum oss þekkingu hans í nyt á þann hátt að gera honum fært að starfa í vísinda-
grein sinn hjer á landi, t.d. í sambandi við Háskóla vorn. Því fremur er þetta æskilegt,
þar sem dr. Eiður mun hafa hinn fylsta áhuga á að helga íslenskri mannfræði krafta
sína í framtíðinni, og telja má víst, eftir því áliti sem erlendir vísindamenn, þeir er
hann þekkja, hafa á honum, að þar væri rjettur maður á rjettum stað.