Tímarit Máls og menningar - 01.05.2012, Blaðsíða 78
B r y n j a Þ o r g e i r s d ó t t i r
78 TMM 2012 · 2
Hann er ekki bara hengdur í hæsta tré, það er borinn eldur að Gosa og
honum hótað að hann verði brenndur sem eldiviður, hann lendir í fjölda
líkamsárása, er nærri steiktur á pönnu með smjöri eins og fiskur, hann er
veiddur í dýraboga, bundinn, hlekkjaður, hýddur og barinn, og eins og það
sé ekki nóg þá er festur við hann steinn og honum steypt í sjóinn til að bíða
drukknunar.
Dauðinn birtist í verkinu á dularfullan og stundum óhugnanlegan hátt.
Eitt sinn þegar Gosi er á hörðum flótta undan kvölurum sínum rekst hann
á mjallhvítan kofa í skóginum og ber þar að dyrum, fast og lengi. Að lokum
opnast gluggi og þar:
… birtist undrafögur mær með túrkísblátt hár og andlitið hvítt eins og vax. Hún
var með lokuð augu og krosslagða armana á brjósti sér. Hún tók til máls, án þess að
hreyfa varirnar og það var eins og röddin kæmi úr öðrum heimi.
– Hér í húsi er enginn. Allir eru dánir … Ég er bara að bíða eftir líkkistunni, til að
láta bera mig burt. Svo hvarf stúlkan og glugginn lokaðist hljótt.
(Collodi, 1883/1987:38).
Þetta er fyrirboði þess sem koma skal. Hrapparnir ná Gosa í kjölfarið og
hengja hann í tré í 15. kafla sem endar á því að Gosi hangir líflaus í snörunni.
Þarna ætlaði Collodi sér að enda söguna þegar hún birtist upphaflega í
barnablaðinu, og skrifaði meira að segja „fin“ (endir) undir hana (Perella,
1986a). Vegna þrýstings frá lesendum hélt hann áfram nokkrum mánuðum
seinna, og þá birtist bláhærða dísin aftur, en í það sinn sem móðurímynd
sem bjargar honum úr trénu.
Alison Lurie veltir fyrir sér hliðstæðum sögunnar um Gosa við kristnar
goðsagnir, og bendir á að fósturfaðir Gosa, smiðurinn, ber nafn sem er
ítölsk útgáfa af nafninu Jósef, (fóstur)föður Jesú. Hún rekur að fleiri en einn
fræðimaður hafi velt upp þeirri samsvörun við kristnar goðsagnir að Gosi
deyr og endurfæðist að minnsta kosti þrisvar, og í eitt skipti er hann hengdur
í tré. Þá geti bláhærða dísin, móðurímyndin, verið vísun í Maríu mey, sem
oft er túlkuð í myndverkum í bláum klæðum (Lurie, 2004).
Sæborgin Gosi hefur átt sér auðugt framhaldslíf í bókmenntum og öðrum
listaverkum, fræðitextum og menningarlegum fyrirbærum. Þá er fjöldi
sæborga beinir afkomendur hans. Kvikmyndin A.I. Artificial Intelligence
(Spielberg, 2001) fjallar um vélmennið David sem gengur manneskjunni
Monicu í sonarstað. Þegar honum er hafnað leitar hann bláhærðu dísarinnar,
sem hann man eftir að hafa lesið um í Gosa, í þeim tilgangi að fá hana
til að breyta sér í dreng af holdi og blóði eins og hún gerði við Gosa. Ian
Watson, annar handritshöfunda A.I., segir um tilurð myndarinnar að Gosi
Collodis hafi verið innblástur að myndinni, Stanley Kubrick, upphafsmaður
hennar, hafi viljað að hún yrði einskonar myndræn vélmennaútgáfa af Gosa
(Watson, 2000). Þá er auðvelt að sjá skyldleika manga-teiknimyndasögu-