Tímarit Máls og menningar - 01.05.2012, Blaðsíða 32
S t e i n a r B r a g i
32 TMM 2012 · 2
úr stubbnum, máluðu andlitið á honum hvítt með kæfandi, þykkri málningu,
settu lampaskerm á höfuð hans og plöntuðu í eitt hornið þar sem hann stóð
meðan þær borðuðu kvöldverð ásamt eiginmönnum sínum og vinum þeirra.
Þá vafði einn mannanna vír utan um stubbinn, leiddi hann að innstungu á
veggnum og skipaði honum að stinga sér inn í hana. Geldingurinn hugsaði um
eldflaug sem tókst á loft og hvernig væri að búa innan í kjarnorkusveppi; hann
þrýsti sér inn í vegginn, eldi rigndi yfir heiminn, húðin bylgjaðist og sprakk,
hárið sviðnaði af höfðinu, augabrúnirnar, hárin á fótunum.
5. kafli
Eftir því sem tíminn leið drógust augu geldingsins æ oftar að styttunni í
miðju garðsins; að litla, þybbna stráknum sem hann vissi hvað hét en leyfði
nafninu að hvíla í doðanum ásamt öllu hinu. Það var einfaldara þannig.
Örin á boganum stóð næstum þráðbeint upp í loft og stundum fannst
geldingnum eins og blindandi glampa stafaði af oddinum. Hann reyndi að
deyfa hugsanirnar um oddinn en það var erfitt, þær sukku ekki og hurfu
heldur möruðu eins og í hálfu kafi, hvort sem var dags eða nætur.
Einn daginn, þegar hann var að baða smávaxna afgangska stúlku fyrir
þjónustu, sagðist hún ekki geta sett sig í spor hans.
„Sjálf gæti ég þetta aldrei, fyrirgefðu mér,“ sagði hún.
„Gætir ekki hvað?“ spurði geldingurinn og skildi ekki hvað hún meinti.
Meðan hann þvoði henni og skrúbbaði fann hann stóru, brúnu augun
hennar hvíla á sér.
„Verið án kynlífs,“ sagði hún. „Eða án löngunar til þess … Verið án
þessarar orku. Er það rétt skilið, ertu án löngunar? Eða geturðu bara ekki
brugðist við, svalað henni?“
„Ég er án löngunar,“ sagði hann og hafði oft átt þetta samtal áður. Stelpan
var nýkomin í búrið og vissi ekki ennþá hvernig allt gekk fyrir sig.
„Án löngunar …“ sagði hún íhugul. „Ég hef aldrei hitt karlmann eins og
þig áður. Á einhvern hátt minnirðu samt á pabba minn.“ Hún horfði dreymin
upp í loft á meðan hann skrúbbaði yfir bringuna á henni og niður magann.
Á eftir myndi hann nudda hana upp úr pálmaolíu. „Við erum algerar and-
stæður,“ hélt hún áfram. „Ég er neydd til að stunda kynlíf og gera mér upp
löngun … En þú ert neyddur til að hafa enga löngun, og sviptur kynlífi.“
Hann sagði ekki neitt, velti fyrir sér hvort hægt væri að kalla það kynlíf
sem hann gerði, eða var skikkaður til að gera, einu sinni til tvisvar í viku.
Líklega ekki.
„En ég hef ást,“ sagði hann, og datt þetta í hug eins og skyndilega.
„Hefurðu ást?“ Stúlkan greip um úlnlið hans og hann hætti að þvo henni.
„Hvað meinarðu að þú hafir ást? Hvernig lýsir það sér?“ Hún virtist undr-
andi og jafnvel í uppnámi. Hann ætlaði ekki að valda henni kvöl, og alls ekki
svona skömmu áður en hún færi í lyftuna.