Tímarit Máls og menningar - 01.05.2012, Blaðsíða 86
86 TMM 2012 · 2
Sigurður Pálsson
Ritunarsaga Utan gátta
Utan gátta (í tveimur orðum) var frumsýnt í Kassanum í Þjóðleikhúsinu 24.
október hrunhaustið 2008. Það er ellefta leikrit eftir mig sem er sviðsett. Ég
hef verið leikritahöfundur alveg jafn lengi og ljóðskáld. Reyndar þýðandi
líka. Þetta þrennt, leikskáld, ljóðskáld og þýðandi hef ég semsé verið
opinberlega síðan 1975, þ.e. ég hef birt ljóð í bók síðan þá, leikverk hafa verið
leikin og þýðingar birst eða verið leiknar. Prósaverk fóru svo að birtast seint
og um síðir, bæði skáldsögur og endurminningaverk.
Ljóð, prósi, leikrit, þessi ritunarsvið eru innbyrðis furðulega ólík, hvert
þeirra þarfnast sérstakrar innstillingar, aðferðar, skriftastrategíu.
Auk þess er mín reynsla sú að ekki er það sama að skrifa leikrit og leik-
rit. Hvert einasta þeirra leikrita sem sett hafa verið upp eftir mig, hvert
þeirra hefur átt sér sinn prófíl, sínar forsendur, sína sérstöku sköpunar- eða
ritunarsögu.
Og hér ætla ég semsé að greina frá ritunarsögu Utan gátta.
Þetta verk á sér langa sögu.
Öll sköpun er umbreytingar, ummyndanir, myndbreytingar. Þess vegna
skulum við óhrædd nota myndlíkingar úr garðrækt eða skógrækt. Fræ. Kím.
Sproti. Ég vel þessar líkingar ekki vegna þess að þær séu fallegar heldur vegna
þess að þær segja einhvern sannleika sem annars tæki lengri tíma að segja.
Myndlíkingar eru að mínu mati ekki til skrauts, aldrei, þær eru tæki til þess
að hjálpa okkur að hugsa.
Fyrsta fræinu var sáð 1983. Það tengist leikritinu Miðjarðarför sem ég
skrifaði fyrir Nemendaleikhúsið. Hallmar Sigurðsson leikstýrði, leikmynd
gerði Gretar Reynisson, eitt af fyrstu verkefnum hans í leikhúsi. Leikritið hét
fullu nafni Miðjarðarför eða innan og utan við þröskuldinn.
Og hvaða þröskuldur er þetta sem kemur fram í titlinum? Það er
þröskuldurinn milli unglingsára og fullorðinsára. Aðalpersónurnar sjö
ungmenni (jafnmörg leikurunum í hópnum), sem eru að máta sig við
hina nýju fullorðinstilveru, prófa sig áfram með ást, langanir, takast á við
foreldravaldið, láta sig dreyma um framtíðina, prófa sig áfram með tilfinn-
ingar og hlutverk.
Áttunda persónan er ekki lengur í hópnum, hann er fjarverandi aðal-