Tímarit Máls og menningar - 01.05.2012, Blaðsíða 65
L e s t r a r h e s t a m e n n s k a
TMM 2012 · 2 65
hliða. Þannig ætti lestrarhestamennska að fá sömu athygli og aðrar íþróttir
og lesandi börn að fá sams konar hvatningu til ástundunar og árangurs frá
foreldrum sínum. Feður þurfa að færa sig upp að hlið mæðra, mæta á hliðar-
línuna og taka að sér aukaþjálfun heima. Einna mikilvægast er að börnin
sjái lesandi fyrirmyndir, að foreldrar þeirra lesi bækur þegar þau sjá til, að
lestur verði ekki bara stundaður þegar ekkert betra býðst. Það teldist léleg
íþróttamennska að æfa bara endrum og sinnum með hálfum huga. Hér
þurfa foreldrar að líta í eigin barm og svara því sama og börnin. Hvað lásu
þeir margar bækur undanfarinn mánuð? Það væri forvitnilegt að sjá hversu
stór hluti foreldrahópsins les að minnsta kosti 10 bækur á mánuði eins og 4%
10–15 ára barna gera.
Umræðan sl. mánuði hefur svo sannarlega verið til góðs. En er ekki
hugsan legt að við höfum beint sjónum að röngum hópi? Höfum við ekki öll
einhvern tímann glott yfir skilningsleysi eldri kynslóðar; skellt skollaeyrum
við „heimur versnandi fer“ bölmóðnum? Börnin byrja ekki að lesa af því að
við höfum áhyggjur af þeim. Og enn síður ef þau heyra sífellt að engin börn
lesi lengur. Þau byrja einungis að lesa ef þau langar til þess og þau halda bara
áfram að lesa ef þau hafa gaman af því. Við verðum að beita jákvæðri nálgun
á vandamálið; færa athyglina frá bóklausu börnunum að þeim bókhneigðu
til að læra af þeim. Það þarf að styrkja ungu lestrarhestana, efla sjálfstraust
þeirra sem lesenda og búa til lesandi fyrirmyndir. Fullorðna fólkið verður
um leið að taka lestraruppeldið fastari tökum, bæði heima og í skólunum.
Lestrarhestamennskan þarf að verða fjölskyldusport. Þá gildir það sama um
lesturinn og aðrar íþróttir: Iðkun er ákvörðun, framfarir verða ekki nema
með æfingum og æfingarnar verða að vera fjölbreyttar eigi árangur að nást.
Æfa þarf spretthlaupið eða hraðlesturinn, langhlaupið eða þrautseigjuna og
þolinmæðina. Það er ekki nóg að hafa tæknina ef maður kemst aldrei í mark,
nær aldrei að klára bók. Gera þarf styrktaræfingar, þ.e. bæta orðaforða,
málskilning og lestækni. Loks má ekki gleyma að teygja og slaka á; að njóta
lestrarins. Svo geta þeir keppt sem vilja, bæði í liðum og sem einstaklingar.
Sennilega eru fá átök jafnþjóðhagslega hagkvæm og efling lestrar-
áhuga barna. Málið snýst ekki bara um einfalt áhugamál barnanna heldur
samkeppnisstöðu þjóðarinnar. Slakur árangur í lesskilningi dregur úr
námsárangri barnanna og möguleika þeirra á menntun. Margar þjóðir í
kringum okkur hafa blásið til sóknar í lestraruppeldinu og við eigum á
hættu að dragast enn frekar aftur úr ef ekkert er að gert.
Tilvísanir
1 Hér er vísað í rannsókn Þorbjörns Broddasonar, Börn og sjónvarp á Íslandi. Nýjustu niður-
stöður er að finna í: Þorbjörn Broddason, Kjartan Ólafsson og Sólveig Margrét Karlsdóttir.
2009. Ný börn og nýir miðlar á nýju árþúsundi. Í Gunnar Þór Jóhannesson og Helga Björns-
dóttir (ritstjórar), Rannsóknir í félagsvísindum X. Félags og mannvísindadeild (bls.253–262).
Reykjavík: Félagsvísindastofnun HÍ.