Ritið : tímarit Hugvísindastofnunar - 01.10.2018, Page 3
2
hún og saga Ástu vel þema þess sem er kynbundið ofbeldi. Ásta veigraði
sér ekki við að fjalla um ýmis málefni sem allajafna lágu í þagnarhjúpi á
hennar tíð og hún segir frá kynbundnu ofbeldi víðar en í „Dýrasögu“.
Það eru ekki ný tíðindi að hvítir karlar hafi frekast farið með völd í
vestrænum samfélögum og stjórnað því um hvað hefur verið rætt, hvar
og hvenær; heldur ekki að fyrir vikið hafi raddir kvenna, barna og margra
minnihlutahópa lengst af ekki hljómað hátt. En eitt af því sem löngum
hefur verið þaggað rækilega niður eru umræður um kynbundið ofbeldi.
Það má skilgreina sem ofbeldi á grundvelli kynferðis – líkamlegt, sálrænt,
kynferðislegt eða fjárhagslegt – sem veldur eða gæti valdið þeim sem fyrir
verður skaða eða þjáningum af einhverju tagi. Þar á meðal er þá ofbeldi
sem þeir sæta sem kallaðir hafa verið „kyngervisútlagar“ (e. gender outlaws)
sögunnar, þ.e. hinseginfólk.3
Rekja má ýmis dæmi um kynbundið ofbeldi. Því hefur til að mynda
verið markvisst beitt í styrjöldum allt fram á þennan dag eins og glöggt má
sjá á skilgreiningu Sameinuðu þjóðanna á nauðgunum sem stríðsvopni.4
Íslensk saga sýnir að karlar geta orðið fyrir kynbundnu ofbeldi á stríðstím-
um rétt eins og konur. Í „Íslendinga sögu“ Sturlu Þórðarsonar er sagt frá
því hvernig Sturla Sighvatsson lætur meiða frænda sinn Órækju Snorrason
í Surtshelli. Sturla fær Þorstein langabein til verksins og sagan segir m.a:
Var þá tekinn knífur og vafiður og ætlað af meir en þverfing-
ur. Órækja kallaði á Þorlák biskup sér til hjálpar. Hann söng og í
meiðslunum bænina Sancta María, mater domini nostri Jesu Christi
[Heilög María, móðir drottins vors Jesú Krists]. Þorsteinn stakk í
augun knífinum upp að vafinu. En er því var lokið bað Sturla hann
að minnast Arnbjargar [Arnórsdóttur, konu Órækju] og gelda hann.
Tók hann þá burt annað eistað.5
3 Um „kyngervisútlaga“ sjá t.d. Brenda Cossman, „Gender performance, sexual
subjects and international law“, Canadian Journal of Law & Jurisprudence 2/2002,
bls. 281–296, hér bls. 289–293. Sjá einnig Aeyal Gross, „Gender Outlaws Before
the Law: The Courts of the Borderland“, Harvard Journal of Law & Gender 2009,
bls. 165–231.
4 „Rape: Weapon of war“, United Nations Human Rights: Office of the High Com-
missioner, sótt 2. desember 2018 af https://www.ohchr.org/en/newsevents/pages/
rapeweaponwar.aspx. Um þetta efni sjá einnig Doris E. Buss, „Rethinking ‘Rape
as a Weapon of War’“, Feminist Legal Studies 2/2009, bls. 145–163.
5 „Íslendinga saga“, Sturlunga saga I, ritstj. Örnólfur Thorsson, Reykjavík: Svart á
hvítu, 1988, bls. 381.
BerGljót SOFFÍA, Guðrún OG SiGrún MArGrét