Ritið : tímarit Hugvísindastofnunar - 01.10.2018, Side 18
18
Í orðum Gerðar birtist sá vandi sem skáldið stendur frammi fyrir þegar
það ákveður að yrkja glæpaljóð. Í öllum frásögnum um morð býr sú hætta
að ofbeldið sé miklað og að um leið verði lýsingin á kostnað fórnarlambsins
og bæti með því móti gráu ofan á svart ef um sannsögulega atburði sé að
ræða. Hvernig er best að miðla kynbundnu ofbeldi án þess að mikla það?
Hvernig geta slíkar frásagnir verið tilgangsríkar, til þess ætlaðar að opna
augu lesandans fyrir veruleika fjölda kvenna sem eiga sér hvergi griðastað
og fáa eða enga málsvara?
Eins og kemur fram í síðari hluta tilvitnunarinnar er þetta einmitt
viðfangsefni Drápu og er fangað í sjálfu nafni ljóðsins. Markmið Gerðar
Kristnýjar sem ljóðskálds er að benda á þversögnina sem býr í því að yrkja
„drápur um forsmáðar og ofsóttar konur. Drápurnar voru tileinkaðar
æðstu og hefðbundnustu fulltrúum hins veraldlega valds á miðöldum, þær
voru fluttar við hirðir konunga og þeim til heiðurs. Í samanburðinum
einum felst því femínísk athöfn. Gerður tekur með þessum hætti að sér að
yrkja um allar þessar konur að fornu og nýju sem áttu skilið ljóð en fengu
ekki vegna þess að þær þóttu ekki verðugt yrkisefni frá sjónarhóli hefð-
arinnar.“3
Í greininni „Átti hún ekki alltaf inni hjá þér ljóð?“ horfðu Alda Björk
Valdimarsdóttir og Guðni Elísson á skáldferil Gerðar allt frá fyrstu ljóða-
bókunum Ísfrétt og Launkofa4 yfir í störf hennar sem blaðamanns hjá
tímaritaútgáfunni Fróða og sem ritstjóra Mannlífs, en á tíu ára tímabili
frá 1994 til 2004 tók Gerður mörg viðtöl við einstaklinga úr íslenskum
undirheimum, jafnt morðingja og kynferðisafbrotamenn. Rauði þráðurinn
í þessum greinum var „ofbeldisbrot gegn konum, jafnt kynferðisglæpir og
líkamsárásir“.5 Þessu tímabili í ferli Gerðar, sem einkennist af rannsókn-
arblaðamennsku, lýkur sennilega með útgáfu Myndarinnar af pabba. Sögu
Telmu. Fyrir hana hlaut Gerður Bókmenntaverðlaun starfsfólks bókaversl-
ana árið 2005 og Blaðamannaverðlaun Íslands 2005, en bókin segir sögu
Telmu Ásdísardóttur og fjögurra systra hennar, en þær voru allar gróflega
misnotaðar af föður sínum.6
3 Sjá Alda Björk Valdimarsdóttir og Guðni Elísson, „„Átti hún ekki alltaf inni hjá þér
ljóð?“ Gerður Kristný og raddir kúgaðra kvenna“, Són: Tímarit um óðfræði 15:2017,
bls. 45–61, hér bls. 51.
4 Gerður Kristný, Ísfrétt, Reykjavík: Mál og menning 1994; Gerður Kristný, Launkofi,
Reykjavík: Mál og menning 2000.
5 Alda Björk Valdimarsdóttir og Guðni Elísson, „„Átti hún ekki alltaf inni hjá þér
ljóð?“ Gerður Kristný og raddir kúgaðra kvenna“, bls. 46.
6 Gerður Kristný, Myndin af pabba. Saga Telmu, Reykjavík: Vaka-Helgafell 2005.
AldA Björk VAldimArsdóttir oG Guðni Elísson