Ritið : tímarit Hugvísindastofnunar - 01.10.2018, Síða 20
20
og umfang vandans. Það er líka til marks um þær breytingar sem verða á
umræðunni á fyrsta áratugnum eftir aldamót að aðeins tveimur árum síðar,
árið 2006, fær Gerður Blaðamannaverðlaun Íslands fyrir bók sína Myndin
af pabba, sem fjallar, rétt eins og Mannlífsgreinin, um kynferðislega mis-
notkun ættingja á barni.
Markmið Gerðar sem blaðamanns og skálds hefur lengi verið að opna
umræðuna, að færa vanda kynbundins ofbeldis upp á yfirborðið. Í við-
tali við Bergþóru Njálu Guðmundsdóttir, sem tekið var í tilefni af útgáfu
Myndarinnar af pabba, orðaði hún þetta verkefni sitt svo: „Ef við getum
ekki rætt kynferðisofbeldi heldur fólk áfram að það sé ekki til og þá er ekki
nokkur leið að ætlast til að dómskerfið taki á slíkum glæpum af neinum
dug, eins og sést á málinu gegn pabba Thelmu.“11 Þótt Gerður hafi nú
sagt skilið við blaðamennskuna, að minnsta kosti tímabundið, eru ljóða-
bálkarnir þrír, sem koma út á þeim áratug sem nú er að líða, vitnisburður
um að hún hafi ekki látið af því femíníska markmiði sínu að „særa fram
svipi liðinna kvenna sem áttu sér fáa eða enga málsvara, sem gátu aldrei
búist við því að saga þeirra yrði færð til bókar“.12
Það er ekki síst á þessum forsendum sem lesa má Drápu en í því ljóði
glímir Gerður meðal annars við spurninguna um hvernig hægt sé að miðla
grófu ofbeldi á femínískum forsendum, þar sem markmiðið sé að gera hlut
ofbeldismannsins aldrei meiri en nauðsyn krefur og passað sé upp á að
fórnarlambinu sé sýnd sú virðing sem það á heimtingu á. Vandi túlkandans
er ekki minni, því að hann verður að varast að setja ljóðið í það túlkunar-
samhengi að samasemmerki verði á milli ofbeldis og listrænnar nautnar, ef
tilgangurinn á fyrst og fremst að vera sá að heiðra þessar kúguðu konur og
vekja lesendur til tilgangsríkrar vitundar um ömurlegt hlutskipti þeirra.
Áður en lengra er haldið er mikilsvert að glöggva sig á sögulegum bak-
grunni ljóðsins, en efni þess er unnið upp úr ýmsum heimildum öðrum en
eldri bókmenntatextum (sem hljóta alltaf að setja mark sitt á samtímabók-
menntir) til að mynda dómsskjölum og viðtali við gerandann sjálfan, Braga
Ólafsson.
11 Bergþóra Njála Guðmundsdóttir, „Skömmin er ekki mín“, Tímarit Morgunblaðsins
9. október 2005, bls. 10–17, hér bls. 16.
12 Alda Björk Valdimarsdóttir og Guðni Elísson, „„Átti hún ekki alltaf inni hjá þér
ljóð?“ Gerður Kristný og raddir kúgaðra kvenna“, bls. 50.
AldA Björk VAldimArsdóttir oG Guðni Elísson