Ritið : tímarit Hugvísindastofnunar - 01.10.2018, Page 30
30
Þrátt fyrir að nafn kvenhetjunnar sé aldrei nefnt í ljóðinu er það gefið
til kynna, því að þegar stúlkan fylgir boxaranum heim í greni hans er hún
Gréta í ævintýrinu um Hans og Grétu: „Hann villti þig / með rúnum /
rændi brauðmolunum / úr lófa þínum / svo þú rataðir ekki / um borg-
arskóginn // Hafi hann sjálfur / gengið heill til skógar / var engum vog-
andi / inn í þann myrkvið // Þú veittir því / ekki athygli / fyrr en of seint
/ að húsið sökk // Vatnið ýrðist / milli fjala / fossaði inn / um glugga // Þú
greipst / í boxarann // hönd þín / í lófa hans“ (37–38). Setningin „Hann
villti þig / með rúnum“ kallar jafnframt fram í hugann þriðju Grétuna, þá
sem finna má í fyrrnefndum harmleik Goethes, en hún er tæld af Fást með
aðstoð Mefistófelesar. Tengingarnar við þýska sorgarleikinn rísa þó ekki
aðeins af nafni söguhetjunnar, því að alls kyns önnur textatengsl má rekja
milli verkanna tveggja.
Drápa er ekki aðeins saga ungrar konu sem er leidd á villigötur af elsk-
huga/eiginmanni með þeim afleiðingum að í lokin lætur hún lífið. Ljóðið
snýst einnig um kosmísk átök góðs og ills á yfirnáttúrulegu plani, en ekki
einu sinni „Krossinn / á kirkjuturninum“ nær að „rjúfa myrkrið / sem
grúfði / yfir húsunum“ (12). Ljóðmælandi Drápu er djöfullinn sjálfur.
Hann er sá sem lýsir atburðunum fram að morðinu og afleiðingum þess og
rétt eins og í sorgarleik Goethes birtist Mefistófeles fyrst á snæviþöktum
götum Reykjavíkur í líki svarts hunds: „Ég leið um / í líki hunds // Golan
strauk / snöggan feld / hvíldi hönd / á kolli mínum // Kettir hurfu / inn
í runna / hentust bak við / tunnur“ (11). um miðbil ljóðsins tekur djöf-
ullinn svo á sig mynd stórrar leðurblöku en lýsingin á honum minnir þá
um margt á senuna í kvikmyndinni Fást (1926) sem leikstýrt var af þýska
leikstjóranum F.W. Murnau og byggð er á verki Goethes. Þar er Emil
Jannings í hlutverki Mefistófelesar og snemma í myndinni sjáum við hann
í líki risavaxinnar leðurblöku voma yfir borg þar sem farsótt geisar, en
Gerður dregur upp svipaða mynd af djöflinum í Reykjavík. Kápuhönnun
Alexöndru Buhl dregur skýrt fram þessa mynd af djöflinum því þegar hún
er opnuð sjást vængirnir tveir teygja sig eftir framhliðinni og bakinu.
Djöfullinn gegnir lykilhlutverki í ljóðinu. Hann segir söguna og rennur
saman við borgarlandslagið í lýsingum sínum. Mefistófeles er uggvænleg
sveimandi vera sem heldur sig til hlés og fylgist með, á meðan hann endur-
varpast í „hélu götunnar“ (83), hann er demón með leðurblökuvængi,
með „svört segl/ strengd milli tálgaðra tinda“ (55). Stundum verður hann
hluti af vetrarhljóðunum, köld stunan í vindinum, eða kræklóttar greinar
AldA Björk VAldimArsdóttir oG Guðni Elísson