Ritið : tímarit Hugvísindastofnunar - 01.10.2018, Síða 47
48
Nokkur orð um bakgrunn og uppruna
Margt er á huldu um uppruna sagnadansa. Í upphafi 11. aldar er sagt frá
dansandi betlurum í Þýskalandi sem sungu kvæði með viðlagi sem svipar
að ýmsu leyti til sagnadansa að forminu til og jafnvel einnig efnislega.9
Heimildir eru um áþekk kvæði í Englandi og Danmörku og á Íslandi er
greint frá dansi og danskvæðum í sögum sem eiga að gerast snemma á 12.
öld, þótt heimildirnar séu að minnsta kosti öldinni yngri. Í Frakklandi voru
til kvæði byggð á munnlegum kveðskap, sem hafa fyrst og fremst verið
tengd hinni kurteislegu hirðmenningu franska aðalsins, chanson d’histoire
eða chanson de’tuile og hinu bretónska sagnaefni, matière de Bretagne. Hvað
sem öðru líður voru kvæði af þessu tagi útbreidd um alla Evrópu á hámið-
öldum.10 Það er ljóst að sá sagnaheimur sem er ríkjandi í sagnadönsum,
sérstaklega þeim sem segja frá riddurum og frúm, er nátengdur þeim sem
finna má í frönskum rómönsum og hirðkvæðum, en gæti samt sem áður
verið runninn frá alþýðufólki víða um álfuna. Einnig er vert að hafa í huga
þýðingar á frönskum riddarabókmenntum við norsku hirðina sem áttu sér
stað frá fyrri hluta 13. aldar og fram á þá 14.
Kvæði sem falla undir skilgreiningu sagnadansa og hafa varðveist
hér á landi eru um 100 að tölu, og eru mun færri en annars staðar á
Norðurlöndum. Samkvæmt skilgreiningu Vésteins Ólasonar fjalla 74 kvæði
um „riddara og frúr“.11 Fyrir utan þessi kvæði fjalla nokkur gamankvæði
einnig um samskipti karla og kvenna þannig að alls má segja að rúmlega
80 kvæði segi frá samskiptum kynjanna á einhvern hátt. Samkvæmt TSB
eru riddarakvæðin hérlendis þó aðeins 64. Ástæðan fyrir þessu misræmi er
sú að flest kvæðin er hægt að flokka á fleiri en eina vegu, því þótt þau séu
fremur stutt og einföld í sniðum er umfjöllunarefnið sjaldan einfalt. Kvæði
getur bæði sagt frá yfirnáttúrlegum atburðum og ofbeldi gegn konum og
því væri mögulegt að flokka það í tvo óskylda flokka, eftir því hvað sá sem
flokkar telur mikilvægara. Kvæði af vallara systrabana (ÍF 15; TSB B21) sem
9 Ernst Erich Metzner, „Lower Germany, England, Denmark and the Problem of
Ballad Origins“, The European Medieval Ballad: A symposium, ritstj. Otto Holzapfel,
Julia McGrew og Iørn Piø, Odense: Odense University Press, Laboratorium for
folkesproglig Middelalderlitteratur, 1978, bls. 27–33.
10 Bengt R. Jonsson, „Oral literature, written literature: The Ballad and Old Norse
Genres“, The Ballad and Oral Literature, Harvard English Studies 17, ritstj. Joseph
Harris, Cambridge MA, London: Harvard University, 1991, bls. 150–152.
11 Vésteinn Ólason, Sagnadansar, bls. 5 (efnisyfirlit).
IngIbjörg EyþórsdóttIr