Ritið : tímarit Hugvísindastofnunar - 01.10.2018, Síða 49
50
margt um hvernig hefðin hefur verið í gegnum aldirnar, hvorki um kynja-
hlutfallið né flutningsmáta kvæðanna.15
Heimildir um dans og flutning sagnadansa eru mjög fáar og óskýrar
þær sem þó eru til. Niðurraðan og undirvísan hvurninn gleði og dansleikir
voru tíðkaðir og um hönd hafðir á fyrri tíð (DFS 67) er ritgerð eftir óþekktan
höfund, að öllum líkindum frá seinni hluta 18. aldar. Þar er að finna lýs-
ingu á gleði, allt frá því að tveir menn safna fólki saman til vökunæturinnar
og þar til henni er slitið að morgni. Áhugavert er að sjá þar hversu mikil
áhersla er lögð á hlut kvenna í gleðinni, sem hefst á því að þær „kveða
heilög kvæði útvalin“. Þar kemur einnig fram að konur hafi bæði dansað
og kveðið einar: „Nú setja gleðimennirnir til kvennadans. Hann innrétt-
ast so, að kvenfólkið allt stígur dans í hring, og þá þær hætta, slá þær upp í
vikivaka.“16 Í framhaldi af þessu er rætt um hjörtleik, en að honum loknum
segir: „[...] en kvenfólkið snýst í vikivaka, það sem í kringum hjörtinn stóð
og kveða þær þau fallegustu kvæði sem fást kunna, og nú hlýða allir sam-
eiginlega. Kvæðin finnast víða rituð. Þau þarf eg ei framar til að nefna“.
Og nokkru síðar: „Kvenfólkið kveður þau beztu kvæði.“ Líklegt má telj-
ast að við hringdansinn sé kveðinn sagnadans en ekki er ljóst samkvæmt
ritgerðinni hvort konur hafi kveðið fyrir þeim dansi.17 Hér er einnig rætt
um að konur stigi einar vikivakadans. Yfirleitt hefur vikivakadansi verið
lýst þannig að karl og kona dansi saman, andspænis hvort öðru, við viki-
vakakvæði. Hér er því ýmislegt óljóst, en þó greinilegt að konur kveða
einar „hin fegurstu kvæði sem fást kunna“ og „þau beztu kvæði“. Og konur
virðast dansa hringdansinn, kvennadansinn, einar og lýst er fögrum söng
þeirra. Konur eru því áberandi í gleðinni og bæði dansa og kveða einar.
Í langflestum íslenskum sagnadönsum er sagan sögð frá sjónarhóli
15 Ýmsir skrásetjarar og flytjendur, Ása gekk um stræti, ismus.is, þjóðfræðisafn, sótt
20. september 2018 af https://www.ismus.is/search/Ása+gekk+um+stræti; Tófa
situr inni, ismus.is, þjóðfræðisafn, sótt 20. september 2018 af https://www.ismus.
is/i/stanza/uid-d461e235-84ae-4652-ae48-d531358d0928.
16 DFS 67 er safn kvæðauppskrifta og fróðleiks af ýmsu tagi, sem varðveitt er í þjóð-
fræðasafni Dana, Dansk Folkemindesamling. Niðurraðan og undirskipan er hluti af
því safni, í D-hluta þess, nr. 7. Aðalheiður Guðmundsdóttir, „DFS 67“, Opuscula
IX, Biblioteca Arnamagneaea nol. XLII, 2003, bls. 233–266; Jón Samsonarson
ritstj., Kvæði og dansleikir I, Reykjavík: Almenna bókafélagið, 1964, bls. liv.
17 Jón Samsonarson, Kvæði og dansleikir I, bls. lix og lxiii. Sjá einnig lýsingar á vikivaka-
dansi: Aðalheiður Guðmundsdóttir, „The Dancers of De la Gardie 11“ Medieval
Studies 74/2012, bls. 7 (í sérprenti); og Sigríður Þ. Valgeirsdóttir, Íslenskir söngdansar
í þúsund ár: Andblær aldanna, Reykjavík: Háskólaútgáfan, 2010, sjá t.d. bls. 54–63.
IngIbjörg EyþórsdóttIr