Ritið : tímarit Hugvísindastofnunar - 01.10.2018, Page 56
57
Hér má sjá hið þekkta þema „afbrýði og trú eiginmannsins á sögusagn-
ir“ og að heiður hans og orðspor skiptir meira máli en hvað er satt og hvað
logið. Gunnhildur er ásökuð saklaus og eiginmaður hennar beitir hana
miklu harðræði fyrir vikið. Það virðist ekki skipta máli hvort ásakanirnar
eru réttar eða rangar, orðspor hennar og þá hans um leið hefur beðið
hnekki og hann þarf að rétta hlut sinn með því að refsa henni.
„Reif hann hennar stakkinn, reif hann hennar serk“
Í sumum kvæðum fara saman margháttaðar raunir. Hér verður tekið eitt
dæmi þar sem óvenju margt er lagt á eina stúlku: nauðgun, sifjaspell, þrí-
burafæðing og föðurleg reiði. Í Kvæði af Margrétu og Eilíf 31 segir frá börn-
um konungsins í Danmörk. Eilífur nauðgar Margréti systur sinni – hann
þekkti hana reyndar ekki í sjón þar sem hún hafði verið lengi í burtu, hvort
sem það er honum til málsbóta eður ei. Margrét hefur verið í klaustri en
leggur af stað í heimsókn til föður síns. Á leiðinni hittir hún ungan mann:
„Tók hann frúna Margrétu/ ofan af hesti sín grá, /bar hana langt á skóginn
út/ þar laufið blakar uppá.“ Síðan upphefjast samræður þar sem rauðagull
kemur við sögu, sem Margrét vill ekki þiggja, en svo segir: „Reif hann
hennar stakkinn/ ofan úr hverjum geira/ gullband lá um axlirnar,/ dreyr-
inn óx æ meira.// Reif hann hennar stakkinn/ reif hann hennar serk/ áður
hann gat framið/ það syndsamlega verk.“ Þegar Eilífur kemst að því að
Margrét er systir hans, biður hann hana um að segja engum frá. Margrét
heldur aftur í klaustrið. Þegar hún kemur ekki til veislu í höllu föður síns
nokkru síðar spyr kóngurinn abbadísina hverju sæti og kemst þá að því að
Margrét er barnshafandi. Hann þrýstir á hana að segja hver barnsfaðirinn
sé, en hún neitar. Undir lok kvæðisins kveikir kóngurinn í klaustrinu sem
brennur á meðan Margrét fæðir þrjá syni með aðstoð þriggja helgra meyja
sem leggja börnin í silkiklút. En Eilífur „hann slökkti þann rauðaloga/
með sínu hjartablóði“. Og hann sem var valdur að þessu öllu, lætur líka
lífið: „Dauður frá eg hann Eilífur/ fyrir utan eldinn lá.“
Í kvæðinu er nauðgunin nefnd „það syndsamlega verk“, en henni er
þar fyrir utan lýst á hlutlægan og um leið mjög myndrænan hátt; hvernig
Eilífur rífur fötin af Margréti og hvernig dreyrinn vex. Margrét fæðir börn
sín í brennandi klaustrinu og þar má sjá hvernig sögusamúðin birtist í því
að henni til aðstoðar eru þrjár helgar konur: „Fagrar voru þær meyjarn-
31 Vésteinn Ólason, Sagnadansar, bls. 248–252. Umfjöllun um kvæðið undir nafninu
Margrétar kvæði í The Traditional Ballads of Iceland, bls. 174–179.
„REIF HANN HENNAR STAKKINN, REIF HANN HENNAR SERK“