Ritið : tímarit Hugvísindastofnunar - 01.10.2018, Síða 62
63
því að hún sé enn mey. Kristín lofar Maríu mey fyrir að hafa hlíft meydómi
sínum, fer að gröf unnusta síns og „pínir þar sitt hold“ þar til hún lætur
einnig lífið.
Þetta er eitt af fáum dæmum þar sem svo afdráttarlaus ástarjátning
sést innan kvæðagreinarinnar. Dráp Sveins kóngs á brúðguma Kristínar
er honum gleymt, eða skiptir ekki máli þar sem hann er sjálfur kóng-
urinn. Kvæðið er dramatískt á sama hátt og Kvæði af Margrétu og Eilíf, það
er engin undankomuleið og allir hlutaðeigandi bíða bana. Frúin Kristín
drepur svo sannarlega kónginn, sem drap brúðguma hennar og hún bind-
ur enda á eigið líf, því engin önnur leið virðist fær. Hún gefst hins vegar
ekki upp fyrir kónginum heldur snýr á hann, þótt fórnarkostnaðurinn sé
hennar eigin dauði.
„dynur í velli, drengir í burtu ríða.“43
Konur þeirra sjö kvæða sem hér hafa verið rædd eru í mismunandi aðstöðu
til að takast á við kynferðislegt ofbeldi. Sumar týna lífinu en konur síðast
töldu kvæðanna og annarra sem fjalla um svipað efni ná að grípa til hefnda.
Ljóst er að sögusamúðin er hjá þeim, jafnvel þótt þær drepi mann, sem
væri ekki trúverðugt í raunverulegum heimi. Ofbeldið er orðað opinskátt,
karlar taka konur traustataki og reyna að brjóta þær á bak aftur, en það
tekst alls ekki alltaf. Þær neita að vera fórnarlömb og grípa til aðgerða,
svo fórnarlambið verður að geranda. Kvæðin standa með þeim sem verða
fyrir ofbeldinu, helgar meyjar aðstoða Margréti við barnsburðinn og
Gunnhildur verður aftur sprund og fer til himna. Þau fordæma verkn-
aðinn með því að kalla hann ýmist „syndsamlegt verk“, „níðingsverk“ eða
„skemmdargjörning“.
Hér að framan var minnst á hugmyndir Pauls Acker um að kvenhetjur
eddukvæðanna geti hafa verið konum fyrirmyndir, og tengsl þeirra og
kvenna sagnadansa. Að sumu leyti má segja að hann hafi rétt fyrir sér, en
eins og bent hefur verið á eru sagnadansarnir ekki síður leið til að segja
sögur sem erfitt hefur verið að orða með öðrum hætti, ekki mátti segja, og
lýsa viðbrögðum sem ekki var pláss fyrir í veruleikanum. Vissulega má líta
á kvæðin sem valdeflingu kvenna en allt eins má líta á þau sem eins konar
hreinsun, kaþarsis, og leið til að horfast í augu við eigin sögur, svipaðar
þeim sem sungnar eru og vinna úr eigin reynslu með hjálp þeirra, eins og
Marina Warner hefur bent á og nefnt var hér að framan.
43 Hluti viðlags við Kvæði af vallara systrabana, ÍF 15.
„REIF HANN HENNAR STAKKINN, REIF HANN HENNAR SERK“