Ritið : tímarit Hugvísindastofnunar - 01.10.2018, Page 114
116
Á heildina litið er áreiðanlega meira um að gleði-orðum fylgi neikvæð-
ur stimpill þegar þau eru notuð um konur. Gleðimaðurinn Friðgerður í
Ljósvetninga sögu (sjá (3)c.) var til dæmis talin lauslát og þar kemur fram
neikvætt viðhorf til konu sem er gefin fyrir gleðskap. Í elsta dæminu um
orðið gleðikona í íslenskum heimildum orti Eggert Ólafsson um að hæðst
væri að gleðikonum (sjá (4)) og orðin alræmd gleðikona segja einnig sína
sögu.75 Því er ekki um það að ræða að orðið gleðimaður sé í eðli sínu jákvætt
og orðið gleðikona neikvætt heldur stafar misræmið í merkingu þeirra og
notkun af ólíku viðhorfi til skemmtanaglaðra karla og kvenna.
Endurheimt orðsins gleðikona
Þess eru dæmi að íslenskar konur vilji ekki una því að orðið gleðikona sé
ekki sambærilegt við orðið gleðimaður og taki til sinna ráða. Afar skýrt
og skemmtilegt dæmi um viðleitni til að rétta hlut orðsins, er félagsskap-
urinn Gleðikvennafélag Vallahrepps, skemmtifélag kvenna á Fljótsdalshéraði
sem var stofnað á bjórdaginn svokallaða, 1. mars 1989. Tildrögum
þess að félaginu var gefið þetta nafn lýsir einn stofnfélaga, Jónína Rós
Guðmundsdóttir, þannig:
Félagsskapurinn hafði fyrst og fremst þann tilgang að leiðrétta
merkingu orðsins gleðikona þannig að merkingin væri hliðstæð
merkingu orðsins gleðimaður – okkur langaði til að það að vera
glys- og gleðikona væri jákvætt hugtak um konur.76
Auk þess að gefa félaginu þetta nafn hafa þessar kátu konur notað orðið
gleðikona um sjálfar sig og hver um aðra. Þótt félagið hafi ekki starfað mikið
á seinni árum, enda sumar kvennanna fluttar burt, hafa þær haldið áfram
að kalla sig gleðikonur og þannig unnið að því að endurheimta gömlu
merkinguna ‘fjörug kona, kona gefin fyrir gleðskap’ sem segja má að hafi
verið fallin í gleymsku. Fyrirspurn frá þeim til Orðabókar Háskólans varð
reyndar hvatinn að skrifum Ástu Svavarsdóttur um orðið gleðikona.77
Einnig má finna nýlegri dæmi um sams konar viðleitni, til dæmis í
bloggfærslunni „Ég er gleðikona!“ frá árinu 2004:
75 Google (12. október 2018) finnur hins vegar ekkert dæmi um orðin alræmdur
gleðimaður.
76 Jónína Rós Guðmundsdóttir, bréfl. 3. nóvember 2017.
77 Ásta Svavarsdóttir, „Gleðikonur og gleðimenn“, bls. 14.
Guðrún Þórhallsdóttir
(20)