Ritið : tímarit Hugvísindastofnunar - 01.10.2018, Page 120
122
‘vændiskarl’. Allt gleði-orðasafnið þarf að hafa í huga þegar lagt er mat á
merkingu orðanna og orðaval og afstöðu Íslendinga til karla og kvenna
sem stunda skemmtanir eða vændi.
Merkingarskýringar orðabóka hafa ef til vill ýtt undir óánægju sumra
kvenna með merkingarmun orðanna gleðimaður og gleðikona. Þær má
nefnilega túlka þannig að orðið gleðimaður hafi átt við um eftirsótta og
jafnvel aðdáunarverða manngerð, karlmann sem er hrókur alls fagnaðar,
en orðið gleðikona hafi einungis haft niðrandi merkingu sem sé afsprengi
hugsunarháttar feðraveldis. Eins og fram hefur komið er þetta ekki alls
kostar rétt og önnur hlið á sögu orðsins gleðikona, eðli skrauthvarfa, er
yfirleitt ekki nefnd þegar merking orðanna gleðimaður og gleðikona er borin
saman.
Skrauthvörf felast í því að velja fallegt eða kurteislegt orð um fyrirbæri
sem mælandanum þykir ekki við hæfi að nefna sínu venjulega nafni. Þeir
sem fyrstir notuðu gleði-orð um vændiskonu hafa valið orð sem var síður
meiðandi en orð sem fyrir voru. Þetta hefur varla verið gert í niðrandi
tilgangi, heldur hafa skrauthvörfin fremur verið leið til að komast hjá því
að segja berum orðum hvaða starfsemi átt var við. Hins vegar er því ekki
að neita að afstaða samfélagsins til skemmtana kvenna og vændis hefur
valdið því að merkingarbreytingarnar frá ‘fjörug kona, kona gefin fyrir
skemmtanir’ til ‘lauslætisdrós’ og ‘vændiskona’ flokkast sem niðrun og
orðið gleðikona hefur jafnvel orðið að skammaryrði. Því kemur ekki á óvart
að íslenskar konur hafi ekki viljað una því að orðið gleðikona hafi þróast á
þennan hátt en orðið gleðimaður ekki.
Ú T D R Á T T U R
Gleðimenn, gleðimeyjar og Gleðikvennafélag Vallahrepps
Um sögu nokkurra gleði-orða og endurheimt orðsins gleðikona
Í greininni er fjallað um sögu nafnorðanna gleðimaður, sem þekkt er úr íslensku máli
að fornu og nýju, og gleðikona sem birtist fyrst í heimild frá 18. öld. Auk þess er sagt
frá fleiri samsettum orðum með gleði- sem fyrri lið sem hafa verið notuð um karla og
konur. Merking þessara orða og notkun er borin saman til þess að kanna hvort orðin
um karla séu almennt hlutlausrar merkingar (‘fjörugur maður, samkvæmismaður’)
en orðin um konur hafi neikvæða merkingu (‘lauslætisdrós, vændiskona’). Rætt er
um eðli þeirra málbreytinga sem gleði-orðin hafa orðið fyrir, m.a. að hve miklu leyti
lántaka úr erlendu máli hafi komið við sögu. Flokkun Lars-Gunnars Andersson á
Guðrún Þórhallsdóttir