Ritið : tímarit Hugvísindastofnunar - 01.10.2018, Page 128
131
þeim. Bók Þórdísar Elvu Þorvaldsdóttur, Á mannamáli: Brotin, dómarnir,
aðgerðirnar og umræðan (2009), gegnir hér lykilhlutverki. Viðkynning Kötu
af bók Þórdísar ýtir úr vör róttækri viðhorfsbreytingu.8 Manneskjan sem
lesendur hafa kynnst fram að þessu – hin vingjarnlega og fórnfúsa hjúkr-
unarkona – víkur af sjónarsviðinu og fram stígur önnur í hennar stað sem
vill aðgerðir. Kata tekur í kjölfarið að feta sig í átt að því hefnendahlut-
verki sem brennisteinslyktin í skírnarlauginni í Hruna í upphafi skáldsög-
unnar vísar til, en þangað keyrir Kata til að minnast þess að ár sé liðið frá
hvarfi Völu. Enda þótt skáldverkið fari heldur óvirðulega með trúarbrögð
í nútímanum svífur refsandi guð Gamla testamentisins yfir vötnum og
útlitslýsingar á Kötu þegar hún grípur til ofbeldis bera keim af refsinorn
eða djöfli, en til þess vísa jafnframt hornin á blóðidrifnu höfði konunnar
á bókarkápunni. Sú örlagaleið refsinornarinnar sem bíður Kötu ákvarðast
þó ekki einvörðungu af bókalestri heldur er hún undirbúin í frásagnarupp-
byggingu sögunnar, í köflum sem auk þess að ögra raunsæislegri framvind-
unni leggja drögin að hugmyndafræðilegri gagnrýni verksins.
Hugmyndafræðileg og kúgandi stjórntæki
Það er brennandi áhugi Tómasar á dúkkuhúsum sem í fyrstu vekur grun-
semdir Kötu. Hann reynist hafa falið hugðarefni sitt framan af hjónaband-
inu en gefur svo Völu öndvegis dúkkuhús í jólagjöf, sérsmíðað í útlöndum,
sem þaðan í frá er þyrnir í augum Kötu. Dúkkuhúsið öðlast hins vegar
nýjan og undarlegan sess í lífi Kötu eftir andlát Völu, en til að fá innsýn
í örlög hennar tekur Kata að misnota grunnefnið í smjörsýru, gamma–
hydroxy butyrate. Lyfjavíman framkallar ofskynjanir sem felast í því að
Kata varpast inn í dúkkuhúsið og dvöl hennar þar varir jafnlengi og áhrif
sýrunnar. Vala hafði innréttað herbergi í dúkkuhúsinu með sérsmíðuðum
eftirlíkingum af hlutum í herberginu sínu en dúkkuhúsið sem Kata ferðast
til geymir ógnandi rými sem ekki voru í upprunalega húsinu og þar virðist
hún í hvert sinn detta inn í ólíka kafla í sömu reyfarakenndu framvindunni.
Stúlka er í haldi í húsinu, henni annaðhvort til verndar eða skelfingar, og
hún er vöktuð af mannferlíki er líkist nashyrningi. Með stjórnartaumana í
þessu húsi fer skáldlegur njósnari að nafni Kalman.
8 Rétt er að taka fram að haustið 2014 ræddi Steinar Bragi í fjölmörgum viðtölum
áhrifin sem bók Þórdísar Elvu hafði á hann og hvernig líta má á verk hennar sem
aflvaka skáldsögunnar. Sjá m.a. Friðrika Benónýsdóttir, „Eðlilegt að vilja drepa
gerandann“, Vísir, 11. október, 2014, sótt 13. mars 2018 af http://www.visir.
is/g/2014710119983.
STRÍð GEGN KONUM