Ritið : tímarit Hugvísindastofnunar - 01.10.2018, Page 129
132
Vímukaflarnir í dúkkuhúsinu verða hér túlkaðir sem birtingarmynd
dulvitaðra hugrænna ferla innra með Kötu og úrvinnslu hennar á reynslu
sinni og lífi, en rýmið sjálft er túlkað sem merkingarfræðilegur stýriþáttur
fyrir sjálfsskoðun Kötu í krafti bókmenntasögulegra og táknrænna skírskot-
ana. Hvað stýriþáttinn varðar liggur fyrir að allt frá því að leikverk Henriks
Ibsen Dúkkuheimilið var frumsýnt árið 1879 hefur myndin af dúkkuhúsinu
verið miðlæg í gagnrýni á feðraveldið og sem tákn fyrir aðþrengt verurými
konunnar í nútímasamfélagi, ekki síst hjálparvana og barnalegt hlutverk
hennar andspænis karlmanninum. Á enskri tungu verður dúkkuhugtakið
sjálft að slanguryrði fyrir aðlaðandi konur (sbr. söngleikinn Guys and Dolls
frá árinu 1950) og þróun leikfangaframleiðslu á tuttugustu öldinni hefur
fátt annað gert en hlaða kynjað táknið þrótti. Ibsenískur arfur dúkkuhúss-
ins dregur fram bjargarleysi Kötu um leið og umgjörðin rennir stoðum
undir það að hugræn ferli Kötu í vímunni snúist um samfélagslega stöðu
hennar og valdamisvægi kynjanna. Þá gefur vísunin í sögufrægt leikritið í
skyn að bæði sé um hugmyndafræðileg og kúgandi híbýli að ræða og að
uppreisn sé í uppsiglingu.9
Þegar grafist er fyrir um það hvernig samfélagslegu valdamisvægi sé
viðhaldið og það endurframleitt er stundum staldrað við hugmyndina um
stjórntæki og er þá jafnan rætt um tvær ólíkar tegundir í því sambandi;
hugmyndafræðileg stjórntæki annars vegar og kúgandi hins vegar.10 Það
eru svo samlegðaráhrifin sem eru eftirsóknarverð. Með því að skapa sam-
stöðu um sjónarmið og gildi dregur hugmyndafræðin úr nauðsyn þess að
(kúgandi) stjórntækjum sé beitt sem fela í sér inngrip í atferli einstaklinga
með líkamlegum hætti, en sá kostur er eftir sem áður fyrir hendi. Þessa
hugmynd um tvívíg stjórntæki er ekki úr vegi að yfirfæra úr hefðbundnum
greiningarfarvegi sínum, stéttabaráttunni, yfir á kynjabaráttuna. Annars
vegar stöndum við þá frammi fyrir hugmyndafræðilegum stjórntækjum í
formi ríkjandi hugmynda um kynferði kvenna, kynverund og eðli þeirra og
félagslegt hlutverk, en saman mynda þær kerfi skilgreininga og viðhorfa
sem undirskipar konur körlum. Hins vegar er það kúgandi inngrip karla í
atferli kvenna, en ofbeldi er alvarlegasta birtingarmynd þess.
9 Einar Kári Jóhannsson ræðir einnig dúkkuhúsið og vísanir þess til Ibsens í neð-
anmálsgrein 20 í greininni „Heimatilbúið réttlæti“, bls. 146.
10 Vísunin í stjórntæki á rætur að rekja til Louis Althussers og greinar hans „Hug-
myndafræði og hugmyndafræðileg stjórntæki ríkisins (rannsóknarpunktar)“ sem
finna má í íslenskri þýðingu Egils Arnarsonar í Af marxisma, ritstj. Magnús Þór
Snæbjörnsson og Viðar Þorsteinsson, Reykjavík: Nýhil, 2009, bls. 175–228.
Björn Þór Vilhjálmsson