Ritið : tímarit Hugvísindastofnunar - 01.10.2018, Blaðsíða 133
136
sætta þversögnina sem nefnd er hér að framan, en það er nauðgunar-
menning.17
Virkni nauðgunarmenningar er margþætt, hún mótar hegðun bæði
þeirra sem berskjaldaðri eru og þeirra sem tilheyra hópnum sem getur af
sér gerendur. Kemur hér að hinum „gullna“ skurðpunkti kúgandi og hug-
myndafræðilegra stjórntækja, þar sem samlegðaráhrifin eru framkölluð.
Hlutverk kúgandi stjórntækja er ekki aðeins að refsa heldur einnig að inn-
leiða vitund um mögulega refsingu til að móta hegðun; í kynjastríðinu senda
þau hins vegar þveröfug skilaboð, en áhrifin eru sambærileg. Yfirgnæfandi
líkur eru á því að ekki verði refsað fyrir kynferðisbrot gegn konum, og það
vita allir. Erfitt er að meta hver bein áhrif skilaboða dómstóla eru í raun á
dagfarslegt líf karla en óhætt er að segja að konum standi ógn af körlum og
að ógnin hafi mótandi áhrif á daglegt líf þeirra og atferli; áhyggjurnar eru
stöðugar eins og áðurnefnd Þórdís Elva hefur lýst:
Ég er ung kona. Á lífsleiðinni hafa mér verið lagðar ótal öryggis-
reglur vegna kynferðis míns, sumt sem ég hef tekið til mín og annað
sem ég hef látið vera. Mér var kennt að vera helst ekki ein á ferli eftir
myrkur og forðast illa upplýst svæði. Ef ég þyrfti að vera ein á ferli var
mér kennt að halda á lyklunum mínum með krepptum hnefa þannig
að þeir stingjust út á milli fingra minna og gætu valdið árásarmanni
meiri skaða ef ég þyrfti að slá frá mér. Mér var kennt að ef mér væri
veitt eftirför eða ef ég yrði fyrir götuáreiti ætti ég ekki að ganga hrað-
ar og ekki að sýna óttamerki, en slá inn 112 á farsímanum, væri ég
með slíkan á mér. Ég átti aldrei að skilja drykkinn minn við mig á
skemmtistað, aldrei að þiggja drykk sem ég horfði ekki á barþjóninn
blanda og forðast að mynda augnsamband við ókunnuga karla á opin-
berum svæðum eins og bílastæðum eða í lyftu. Mér var kennt að fara
ekki á stefnumót öðruvísi en láta vita hvern ég væri að fara að hitta
og hvenær það væri von á mér heim aftur. Mér var kennt að verða
ekki of full, klæða mig ekki gálulega, daðra ekki of opinskátt og þiggja
ekki far af ókunnugum. Mér var kennt að öskra og pota í augun eða
sparka í punginn á árásarmanninum ef það yrði ráðist á mig. Væri
17 Í greinasafninu Preventing Sexual Violence: Interdisciplinary Approaches to Overcom-
ing a Rape Culture (ritstj. Nicola Henry og Anastasia Powell, London: Palgrave
Macmillan, 2014) gefur að líta fjölbreytilega umræðu um nauðgunarmenningu,
bæði í sögulegu og samtímalegu ljósi, auk þess sem ræddar eru ólíkar leiðir til að
sporna við henni.
Björn Þór Vilhjálmsson