Ritið : tímarit Hugvísindastofnunar - 01.10.2018, Side 135
138
Þá yrðu sett herlög í landinu, útgöngubann eftir klukkan átta,
viagra innkallað úr apótekum,
dauðarefsing við klámframleiðslu,
bann við ofdrykkju kvenna,
bann við kynlífstækjabúðum,
lögregla á hverju götuhorni,
konur skyldaðar til að ganga með lúffur, í bomsum, óopnanlegum
anorökkum. Alltaf.
Konur brenndar á báli.
Þetta er vonlaust dæmi, auðvitað. Ef einum af fjórum körlum væri
nauðgað væru þeir auðvitað engir karlar.22
Kata kann að hafa rétt fyrir sér að um „vonlaust dæmi“ sé að ræða því væri
fjórða hverjum karlmanni nauðgað væri það skýr vitnisburður um að karl-
ar væru ekki lengur valdahópurinn, og því ekki „karlar“ í þeim sem skiln-
ingi sem almennt er lagður í karlmennskuhugtakið.
Það er í þessu samhengi sem persónurnar tvær í dúkkuhúsinu, nashyrn-
ingurinn og Kalman, eru athyglisverðar sem stjórnendur kúgandi híbýla,
dúkkuhússins, þar sem konu er haldið nauðugri og hún beitt ofbeldi – en
snemma má vera ljóst að yfirlýsingar Kalmans um að gjörðir þeirra hafi
hennar hagsmuni að leiðarljósi séu rangar. Færð hafa verið rök fyrir því
að sú úrvinnsla hugrænna og dulvitaðra ferla sem atburðirnir í dúkkuhús-
inu í Kötu tákna séu samfélagslegs eðlis, og hér verður bent á að karlana
tvo megi túlka sem táknmyndir stjórntækjanna sem rædd eru að fram-
an. Nashyrningamaðurinn myndi í þessu sambandi standa fyrir kúgandi
stjórntæki feðraveldisins, en í framvindu atburðarásarinnar í dúkkuhúsinu
er það hann sem nauðgar og pyntar stúlkuna sem haldið er fanginni, frem-
ur en Kalman. Það er jafnframt í meðförum hans sem hefndarhugtakið
kemur fyrst við sögu. „Hvað þú hefur mikla samúð“, segir nashyrndi mað-
urinn hæðnislega við Kötu. Sjálfur segist hann láta aðra í friði svo fram-
arlega sem hann sé sjálfur látinn í friði. „Ef ekki, nú þá fá þeir það sem þeir
báðu um: vandræði. Ef það er vesen á þér þá brýt ég þig í tvennt.“23 Það
sem þarna er fært í orð er eins konar B-kvikmynda útgáfa af lex talionis,
lögmálinu um auga fyrir auga og tönn fyrir tönn. Það sem Kata sér hann
gera stúlkunni er hins vegar nöturleg andstaða orða hans um að „láta aðra
í friði“.
22 Steinar Bragi, Kata, Reykjavík: Mál og menning, 2014, bls. 246.
23 Sama heimild, bls. 131.
Björn Þór Vilhjálmsson