Ritið : tímarit Hugvísindastofnunar - 01.10.2018, Síða 160
164
að þjónusta karla og uppfylla þarfir þeirra.40 Viðhorf sem einkennast af
hlutgervingu kvenna koma til dæmis fram hjá körlum sem gefa konum
einkunnir fyrir útlit sitt, uppnefna þær og leggja áherslu á notagildi líkama
þeirra fyrir þá sjálfa.41 Almennt eru þeir sem hlutgera aðra líklegri til að
kenna þolendum fremur en gerendum um ofbeldi og gera lítið úr þjáningu
hinna fyrrnefndu.42
Sumir þolendanna í rannsókninni lýstu því að þeir hefðu sjálfir verið
farnir að upplifa eigin líkama sem hlut, og að það hefði haft áhrif á hegðun
þeirra og e.t.v. átt þátt í því að ofbeldið átti sér stað:
Ég trúði því í raun og veru að virði mitt lægi í líkama mínum og
hvernig aðrir sæju hann og nytu hans. Það tók fjölmörg ár fyrir mig
að læra að kynlíf er eitthvað sem maður nýtur MEð öðrum, ekki
eitthvað sem gert er FYRIR aðra.
Til dæmis hefur hugtakið eigin ögun (e. normalization) verið notað til að
skýra það hvernig þolendur ofbeldis aðlagast að ofbeldinu og hugmyndum
tengdum því. Orðræða um fyrirbæri getur haft mikil áhrif á viðhorf fólks,
jafnvel á þann hátt að viðkomandi fer að haga eigin hegðun í takt við það.
Þetta kemur svo ekki upp á yfirborðið fyrr en einhver hefur beinlínis boðið
þessari hugmynd birginn.43 Mögulega endurspeglar þessi afstaða, að hafna
hlutgervingunni, aukna umræðu og hugarfarsbreytingu í samfélaginu um
kynferðislegt ofbeldi, þ.e.a.s. að þolendur sjá eigin upplifun í nýju ljósi.
Þar að auki sýna færslurnar að hegðun gerenda endurspeglar hvernig þol-
andinn er hlutgerður:
40 Barbara L. Fredrickson og Tomi-Ann Roberts, „Objectification theory: Toward
understanding women’s lived experiences and mental health risks“, Psychology of
Women Quarterly, 21: 2/1997, bls. 173–206.
41 Tracy N. Hipp o.fl., „Justifying sexual assault: Anonymous perpetrators speak out
online“, bls. 86–87.
42 Steve Loughnan, Afroditi Pina, Eduardo Vasquez og Elisa Puvia, „Sexual objecti-
fication increases rape victim blame and decreases perceived suffering“, Psychology
of Women Quarterly, 37: 4/2013, bls. 455–461, hér bls. 455; Philippe Bernard, Steve
Loughnan, Cynthie Marchal, Audrey Godart og Olivier Klein, „The exonerating
effect of sexual objectification: Sexual objectification decreases rapist blame in a
stranger rape context“, Sex Roles, 72: 11–12/2015, bls. 499–508, hér bls. 499.
43 Ingólfur Ásgeir Jóhannesson, „Leitað að mótsögnum“, Fötlun: Hugmyndir og
aðferðir á nýju fræðasviði, ritstj. Rannveig Traustadóttir, Reykjavík: Háskólaútgáfan,
2006.
Rannveig SiguRvinSdóttiR