Ritið : tímarit Hugvísindastofnunar - 01.10.2018, Síða 169
174
og Jón gamli í Digranesi. Við gömlu mennirnir erum kannski ekki mikil
skáld, en það litla sem við erum, erum við sökum þess að við vorum eitt
sinn í háska staddir.“
Sem ungur maður hafði ég ímugust á þessu lífsháska-tali. Ég ólst upp
í sexunni og sjöunni, á háskalausum velmegunartímum, þegar allir höfðu
vinnu og hitastigið innandyra fór aldrei niður fyrir 25°. Okkar stærsti vandi
var: Afhverju spila þeir ekki Pink Floyd í útvarpinu?
Hvernig áttum við að geta orðið skáld og listamenn? Hvernig í ósköp-
unum gátum við orðið okkur úti um lífsháska?
En smám saman náðum við að fikra okkur í átt að honum; við kynnt-
umst honum í gegnum okkar eigin skáldsagnapersónur: Því dýpra sem við
köfuðum í þær, því meiri sársauka fundum við, angist og örvæntingu, allt
þetta sem brennur svo nærri lífsháskanum.
Hér eru nokkrar af mínum eigin persónum:
Ungur maður svo þjakaður af þunglyndi að hann reynir að verða sér
út um alnæmis-smit í rauða hverfi Parísarborgar. Reiður bloggari á lands-
byggðinni sem missir vinnuna, móður sína, kærustuna og nýfætt barn sitt
allt í sömu bókinni. Ung íslensk stúlka sem endar sem kynlífsþræll rúss-
neskra hermanna í Berlín undir lok Seinna stríðs.
Sem rithöfundur lærir maður smám saman að koma karakterum sínum
í klípu, og láta þá upplifa sannan sársauka, fara með þá niður til heljar og
(oftast) upp aftur. Hið sanna drama verður til „þegar gott fólk lendir í
mjög vondum málum“, eins og sannfróðir segja. Ég sem ólst upp í hinu
fullkomna þjóðfélagi og átti fullkomna æsku fann því loks „lífsháskann“
í gegnum ritstörfin. Ég hafði byrjað á því að skrifa skáldsögu um unga
stúlku sem „þjáist“ fyrir það eitt að finna ekkert til að þjást útaf, í hinum
flata nútíma, og aðra bók um konu sem „þjáist“ fyrir það eitt að vera ekki
nógu fræg, aðeins til að komast svo að því að gömlu Mokka-meistararnir
höfðu haft rétt fyrir sér: Bókmenntakakan verður ekki bökuð nema með
hálfum bolla af „lífsháska“.
En hvernig gat maður skrifað um lífsháska þegar maður hafði engin
kynni af honum sjálfur? Þurfti maður ekki að hafa upplifað hann á eigin
skinni? Allar gömlu kempurnar, Dickens, Ibsen, Nabokov, höfðu í æsku
sinni upplifað hrun fjölskyldunnar, gjaldþrot; séð hana hrapa úr millistétt
niður í lágstétt eða úr aðalslífi í útlegð. Maður hefur á tilfinningunni að
þær upplifanir hafi setið í þeim og orðið þeim eldsneyti sem knúði þá
áfram síðar meir. Og já, jafnvel Shakespeare sá föður sinn falla um flokk,
Hallgrímur Helgason