Ritið : tímarit Hugvísindastofnunar - 01.10.2018, Side 186
192
Þórarinn lést fyrir aldur fram árið 1924, aðeins 57 ára gamall. Jón
Þorláksson, bróðir hans, skrifaði um hann minningargrein þar sem hann
lýsti bæði skoðun sinni og almennings á málverkum Þórarins á þeim tíma:
„Hann málaði einkum landlagsmyndir, og er það mitt álit – og margra
annara leikmanna í þessum efnum, sem jeg veit um – að honum hafi tekist
best allra málara vorra að sýna sumarblíðu íslenskrar náttúru á myndum
sínum.“19 Hér má sjá vísbendingu um hvað það er sem helst hefur höfðað
til almennings á þessum tíma, en það er blíðan og fegurðin sem íslensk
náttúra getur boðið upp á þegar best lætur. Þórarinn túlkar ekki náttúruna
í ógurlegu veldi sínu heldur er það áherslan á hið rólega, smáa og fagra
sem fólki finnst helst einkenna list hans. Þessi afstaða kemur einnig fram í
eftirmælum sem Alexander Jóhannesson ritaði í tilefni af sýningu sem efnt
var til á verkum Þórarins eftir andlát hans. Texti Alexanders er ljóðrænn og
fjallar á áhugaverðan hátt um verk Þórarins og afstöðu til listarinnar:
Þegar sólin stafaði mildum geislum á frjósaman dalinn, engin bára
hrærðist né blakti vindstrá, málaði hann sumargræna hríslu, er teygð
ist létt upp af moldarbarði. Þessi litla hrísla varð honum að ímynd
jarðlífsins og hann naut þessarar smámyndar náttúrunnar, er veitti
honum útsýn yfir alt mannlífið. Eitt blað, eitt blóm varð að ímynd alls
hins bezta og hann gat nú málað íslenzka flatneskju með einmanaleg
um sveitabæ án fjalls eða foss eða litaskrauts skýja; en í þessari auðn
skynjaði hann víðáttuna, er ómælanleg opnaðist sjónum hans.20
Texti Alexanders lýsir ferli Þórarins, væntingum hans í upphafi fer
ilsins, óöryggi og efa sem hrjáði hann um miðja ævina, á þeim tíma sem
viðurkenning hans var sem mest, og að lokum endurfundnu öryggi og ró
þegar líða tók á. Það er áhugavert að skoða þróun Þórarins og verka hans
út frá túlkun Alexanders. Fyrst kemur örugg og afdráttarlaus túlkun í upp
hafi, túlkun sem víkur fyrir varfærnislegum tilraunum og breytingum á
öðrum áratug aldarinnar. Að lokum verður tjáningin öruggari og persónu
legri. Hér má greina umbreytingu hjá Þórarni frá því að vera natúralískur
og opinber listamaður, yfir í listamann sem einkennist af persónulegri
módernískri tjáningu.
19 Jón Þorláksson, „Þórarinn B. Þorláksson listmálari“, Morgunblaðið, 18. júlí 1924,
bls. 3.
20 Alexander Jóhannesson, „Þórarinn B. Þorláksson málari“, Eimreiðin 31: 1/ 1925,
bls. 24–27, hér bls. 25.
Hlynur Helgason