Ritið : tímarit Hugvísindastofnunar - 01.10.2018, Page 188
194
Emil tekur feril Þórarins fyrir á viðtekinn hátt; eins og Gretor efast
hann um gildi menntunar hans. Áhersla Emils er hins vegar á gildi Þórarins
sem frumkvöðuls, sem þess sem:
sér landið fyrstur með augum heimamannsins, – þetta er okkar land,
þetta eru okkar fjöll og okkar dalir, landið, sem við þekkjum og lifum
í. Með sínum yfirlætislausa, en sanna skilningi á íslenzkri náttúru
leggur Þórarinn þannig grundvöllinn að íslenzkri landslagslist.24
Emil túlkar verk Þórarins sem tákn um þjóðlega hugsun, sem fyrir
mynd formlegs natúralisma, stofnanalistar. Eina verkið sem Emil tiltekur
í umfjöllun sinni er ríkisverkið Áning frá 1910, opinbert verk þar sem sér
á bak málaranum sjálfum í angurværri sýn að horfa yfir sköpunarverkið,
„okkar land“.25
Í grein sinni fjallar Gunnlaugur Scheving um hina ýmsu „isma“, allt
frá impressjonisma til súrrealisma, sem dæmi um áherslur í nútímalistinni.
Meginstefið í grein hans er viðleitni til skilgreiningar á ópólítískum mód
ernisma sem byggir á frelsi listamannsins til tjáningar innan listflatarins.
Þetta er list sem byggir á formrænum þáttum þar sem gildi fyrirmyndar
víkur fyrir abstrakthugmyndum um einföldun og formgerð. Gunnlaugur
lýkur máli sínu með áhugaverðri yfirlýsingu:
Myndlistin er einn liður í þeirri viðleitni að fegra og betra þann
heim, er vér lifum í. Listin hefur í heild sinni uppeldislegt gildi vegna
þess, að hún færir einstaklinginn frá því, sem er gróft, ósmekklegt
og skipulagslaust, en gerir kröfur hans meiri til þeirrar siðfágunar
og formfegurðar, sem eru einkenni hinnar sönnu menningar.26
Hér eru í reynd, í nafni módernisma og framfara, teknar upp megin
áherslur klassíska skólans, þar sem algild lögmál um „siðfágun og formfeg
urð“ eru leiðarstefið. Stefnum og áherslum ólíkra listamanna hefur verið
skipað undir tilsvarandi „isma“ þar sem formrænar áherslur og litabeiting
er helst það sem skilur á milli, en ekki tengingar við samfélag, veruleika
eða atburði líðandi stundar.
24 Emil Thoroddsen, „Íslenzkir listmálarar“, Íslensk myndlist: 20 listmálarar, bls. 7–31,
hér bls. 9.
25 Sama rit, bls. 9–10.
26 Gunnlaugur Scheving, „Myndlist 20. aldar“, Íslensk myndlist: 20 listmálarar, bls.
32–41, hér bls. 41.
Hlynur Helgason