Ritið : tímarit Hugvísindastofnunar - 01.10.2018, Qupperneq 195
201
tuttugustu. Kenningar þessar höfðu áhrif með því að draga upp „aðra“
sögu listar á norðurhjara, frábrugðna meginarmi listasögunnar með miðju
sína í Frakklandi nítjándu aldar.
Það var í kjölfarið á þessu, á níunda áratug síðustu aldar, sem bandaríski
listfræðingurinn Kirk Varnedoe tók forsendur norrænnar aldamótalistar
fyrir á áhrifaríkan hátt og til endurskoðunar. Í grein sem Varnedoe skrifar
í sýningarskrá felst ýtarlegt endurmat á norrænni myndlist og hlutverki
hennar í evrópsku listsögulegu samhengi. Hann telur að norræn list hafi
almennt verið einangruð fram til um 1880, en sögulega tengd við þýska
og ítalska myndlist frá fyrri hluta nítjándu aldar. Upp úr 1880 tóku nat
úralískar og módernískar hugmyndir ættaðar frá Frakklandi að hafa veru
leg áhrif á norrænan listheim, með tilsvarandi áhrifum á landslagslistina.
Þegar leið á öldina telur Varnedoe að þessi áhrif hafi þróast á sérstakan
hátt í átt til þjóðlegri listar með nýjum hugmyndum í ætt við symbólisma.
Hann leiðir að því líkur að þessi þróun hafi meðal annars átt sér stað vegna
áhrifa frá ráðandi miðju listheimsins í Frakklandi. Þar hafi í reynd verið
ætlast til þess að norræn list bæri norræn einkenni. Þannig hafi krafan um
þjóðlega list í reynd ekki komið til vegna áhrifa innan Norðurlandanna
sjálfra, heldur hafi áhrif frá miðlægum listheimi í París knúið listamenn
til að skapa sér þjóðlega sérstöðu. Norrænir listamenn hafi fylgt symból
ismanum og þeirri andtæknihyggju sem honum fylgdi, en þó þannig að
hann blandaðist natúralístískum áherslum sem á þeim tíma þóttu þjóð
legri. Þetta leiddi til sérstæðrar listþróunar á Norðurlöndum, þar sem
symbólisminn rennur saman við natúralismann, en er ekki mótsvar við
honum. Listin verður því bæði framsækin og afturvirk í senn, blendingur
nýrra hugmynda symbólismans og, að því er virðist, eldri áhrifa stofnana
bundins natúralisma frá því fyrr á öldinni.54 Varnedoe vísar í hugmyndir
Rosenblums um það að rómantískt samhengi, allt frá fyrri hluta 19. aldar
til samtímans, sé mikilvægt fyrir endurskoðun listasögunnar. Hann telur
einnig að norræna aldamótalistin geti skipt máli sem hugmyndafræðileg
tenging á milli þýskrar rómantíkur á fyrri hluta nítjándu aldar og þýsks
expressjónisma í upphafi þeirrar tuttugustu. Hann er hins vegar ekki á
því að þessi áhrif séu til marks um að hér sé um endurvakta rómantík að
ræða. Í stað þess telur hann afar mikilvægt að skoða einkenni og blæbrigði
norrænu aldamótalistarinnar sérstaklega út frá eigin forsendum, sem mód
54 Kirk Varnedoe, „Nationalism, Internationalism, and the Progress of Scandinavian
Art“, Northern light, ritstj. Kirk Varnedoe, bls. 12–33.
VIðTöKUR Á VERKUM ÞÓRARINS B. ÞoRLÁKSSoNAR