Ritið : tímarit Hugvísindastofnunar - 01.10.2018, Page 213
220
og síðustu skáldsögu Jakobínu, en hún nefnist Í sama klefa og birtist 1981.
Sögumaðurinn er kona, rithöfundur sem ætlaði „að skrifa Góða Bók“, eins
og lesanda er sagt strax á fyrstu síðu, og hún fékk til þess „stóran víxil hjá
Ríkinu“. „Þú skrifaðir upp á víxilinn og hugsaðir þig ekki um.“5
Þarna er komið úr óvenjulegri átt inn í hina eilífu umræðu um lista-
mannalaun og lesandi er ávarpaður sem einn af ábyrgðarmönnum Ríkisins
– væntanlega vegna þess að reiknað er með að lesandinn sé íslenskur þjóð-
félagsþegn með kosningarétt. Jafnframt kemst, strax í bókarbyrjun, los á
vissar viðmiðanir. allar sögur eiga sér innbyggðan lesanda sem lesendur í
holdinu máta sig við, oftast ósjálfrátt, einmitt án þess að hugsa sig um –
en hér kemst raunlesandi ekki hjá því að velta fyrir sér hvort hann eigi að
samsama sig þeim lesanda sem beinlínis er ávarpaður. Hið sama gerist með
það fyrirbrigði sem gjarnan er nefnt „söguhöfundur“ og er einhverskonar
heildarafstaða höfundar eins og hún birtist innbyggð í textann, að teknu
tilliti til veruleikamyndar, samleiks mismunandi viðhorfa, hugsanlegrar
kaldhæðni og fleiri þátta – og hinn ævisögulegi höfundur hefur ekki fulla
stjórn á þessu stoðvirki þótt hann hafi sett það saman. En hér háttar svo
til að einnig sögumaðurinn er rithöfundur auk þess að vera virk persóna í
sögunni, nánar tiltekið nafnlaus kona í ritkreppu, og nærtækt er fyrir þann
sem les bókina að velta fyrir sér hver tengsl þessa rithöfundar séu við rit-
höfundinn Jakobínu Sigurðardóttur, sem er skráður höfundur bókarinnar
og fékk hugsanlega höfundarlaun hjá „Ríkinu“ til að skrifa verk sem á
vitaskuld að vera „Góð Bók“, ef hún á að ganga upp í greiðslu á þessum
„víxli“.
Enn flækjast svo málin þegar í ljós kemur að skáldkonan sem segir
söguna kveðst hafa lagt til hliðar drögin að hinni „Góðu Bók“ og tekið í
staðinn að hripa niður minningar um ferð sem hún fór með strandskip-
inu Esju frá Vestfjörðum til Reykjavíkur fyrir lifandis löngu, þar sem hún
deildi klefa með ókunnri konu, Salóme að nafni, sem henni fannst hún
ekki ná neinu almennilegu sambandi við. En samræður þeirra – í raun
einkum einræður hinnar konunnar, sprottnar af óútskýrðri tjáningarþörf
5 Jakobína Sigurðardóttir, Í sama klefa, Reykjavík: Mál og menning, 1981, bls. 5.
Stórir upphafsstafir vissra lýsingarorða og nafnorða í sögunni vísa væntanlega til
einhverskonar stofnanavæðingar eða eru skopstælingar á viðleitni til að ljá orðum
einræða merkingu. Um sögumiðlunina í þessari skáldsögu, og sjálfvísun verksins,
hef ég fjallað í greininni „Þetta er skáldsaga. Í sama klefa eftir Jakobínu Sigurð-
ardóttur“, Umbrot. Bókmenntir og nútími, Reykjavík: Háskólaútgáfan, 1999, bls.
211-222 (sú grein birtist upphaflega í Tímariti Máls og menningar, 1. hefti 1983).
ÁstrÁður EystEinsson