Ritið : tímarit Hugvísindastofnunar - 01.10.2018, Page 220
227
Því að skáldkonan sem tók í arf ljóðmál rómantíkurinnar og spann úr þeim
þræði hugkvæmar línur, til dæmis í kunnu ljóði um vorið: vinuna sem
„kemur sunnan stíginn / með sumardögg í hárinu, / léttstíg eins og ljósið /
með leyndarmál í brosinu“,18 hún horfir líka til þeirra sem basla við naum-
an kost og hún vill sem óðast leggja sitt af mörkum við að skapa betri heim
í nýju lýðveldi að loknu svartnætti heimsstyrjaldar. Í „náttmálum“ spyr
hún: „Sérðu ekki herrétti heimsins / og hatursins náglottið bleikt?“ Og í
fleiri ljóðum frá þessum árum má finna í senn hugsjónaákall og vonbrigði:
„Var til einskis fyrir frelsi barizt?“ spyr hún um „okkar þjóð sem átti þetta
land.“19 Erlend herseta að stríði loknu, í landi fámennrar þjóðar, var sem
djúpt sár í vitund Jakobínu líkt og margra annarra. Hersetan átti ríkan þátt
í þeirri sundrun þjóðarinnar sem setti meginsvip á íslensk stjórnmál um
áratugaskeið. Og skáldið gerir sér vitaskuld grein fyrir því að hernaðarlegir
hagsmunir eru samofnir hinum efnahagslegu. Í ljóðinu „Fyrsti desember“,
sem vísar þar með til áunnins fullveldis 1918, er sá hátíðisdagur ávarpaður
með bítandi kaldhæðni, eins og sjá má þegar í upphafslínum: „Lyk augum
dagur! Sæl á silki og dún / hér sefur þjóð við gullsins vöggulag.“20
Á þeim tíma er Jakobína yrkir þessi ljóð sín þótti eðlilegt að tengja
þjóðerni við ætterni. „Sama blóð í æðum okkar rennur“, segir í ljóðinu
„Ísland frjálst“. Ekki skal neitt fullyrt um það hvað Jakobínu hefði fund-
ist um fjölmenningarsamfélagið sem tekið er að mótast á Íslandi á nýrri
öld, þar sem „þjóðin“, þetta „ímyndaða samfélag“ eins og það er stundum
kallað í fræðunum, hlýtur að taka utan um fjölda fólks af erlendum upp-
runa.21 Víst er að Jakobína hefði lagt mikla áherslu á trúnað við landið og
18 „Vorljóð á Ýli“, Kvæði, bls. 111–112, hér 111.
19 „Ísland frjálst (1948)“, Kvæði, bls. 28–29.
20 „Fyrsti desember“, Kvæði, bls. 82–83, hér 82.
21 Með „ímynduðu samfélagi“ er vísað til þjóðarumræðu í bók eftir Benedict and-
erson, Imagined Communities. Reflections on the Origin and Spread of Nationalism,
endurskoðuð útgáfa, London og new York: Verso, 1991 (upprunaleg útg. 1983).
Hér rekumst við á þann vanda í íslenskum orðabúskap að orðið „samfélag“ getur
verið nánast samheiti „þjóðfélags“ en „samfélag“ er einnig notað um smærri ein-
ingar, t.d. háskóla, bæjarfélög eða jafnvel ýmsa félagsmálahópa. Þar er orðið merk-
ingarlega í nágrenni enska orðsins „community“. Þegar anderson notar „imagined
community“ um hugmyndafræðilegan skilning á „þjóð“ er hann meðal annars að
vísa til þess hvernig einkenni sem þykja skapa samheldni í einstökum félagsein-
ingum verða ímyndaðir þættir í skilningi okkar á þjóð og þjóðerni, oft fyrir tilstilli
fjölmiðla á hinum einstöku tungumálum (sem gjarnan eru nefndar „þjóðtungur“).
Þegar fólk er hvatt til að standa þétt saman í nafni „þjóðarinnar“ virðist oft búa
mikil söguleg dýpt í hvatningunni, en á hinn bóginn hefur verið bent á að ýmsir
grunnþættir í þjóðarskilningi okkar tíma séu af fremur nýlegum toga. Sjá um
JaKOBÍnUVEGIR